Fjölskyldumeðlimirnir barnanna hafa einnig gert samkomulag við borgina þar sem þau fá tvær milljónir dala og forsvarsmenn borgarinnar hafa heitið því að bæta staðla og þjálfun lögreglunnar, samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar.
Nærri því tvö ár eru liðin frá því táningur ruddist þungvopnaður inn í skólann Robb-skólann í Uvalde og skaut nítján börn og tvo kennara til bana. Ekki liggur fyrir hvort umræddir fjölskyldumeðlimir sem hafa höfðað mál séu eingöngu foreldrar barnanna sem dóu í árásinni eða hvort fjölskyldumeðlimir kennaranna koma einnig að málinu.
Vel á fjórða hundruð lögregluþjóna, frá ýmsum löggæsluembættum, mættu á vettvang en biðu í rúmlega sjötíu mínútur áður en þeir réðust til atlögu gegn árásarmanninum. Á þeim tíma voru börn sem þóttust vera dáin í skólastofunum tveimur þar sem árásarmaðurinn var að hringja í Neyðarlínuna og biðja um aðstoð.
Þá birtu starfsmenn dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna skýrslu í janúar þar sem fram kom að fjöldi mistaka hefðu verið gerð af lögreglu í kjölfar árásarinnar. Fyrr á þessu ári var svokallaður ákærudómstóll skipaður í Texas, vegna rannsóknar sem endar mögulega á því að embættismenn og lögregluþjónar sem komu að viðbrögðunum við árásinni verði ákærðir.
Yfirmaður almannavarna í Texas hefur meðal annars lýst viðbrögðunum sem „ömurlegu klúðri“ og sagt að lögregluþjónar hefðu átt að fella árásarmanninn um leið og þeir mættu á vettvang.
Sjá einnig: Hefðu átt að stoppa byssumanninn eftir þrjár mínútur
Í lögsókn fjölskyldnanna segir að lögregluþjónar á vegum Texas-ríkis hafi ekki fylgt starfsreglum sínum vegna skotárása. Kennarar og nemendur hafi gert það, með því að læsa hurðum, slökkva ljós og fela sig og þess vegna hafi þau setið föst í skólanum að bíða eftir lögregluþjónum sem voru ekki á leiðinni.
AP hefur eftir einum lögmanni fjölskyldnanna að lögregluþjónarnir hafi svikið fjölskyldurnar og fórnarlömb árásarmannsins. Ríkislögregla Texas hafi haft alla burði til að bregðast fljótt við en það hafi ekki verið gert.