Í skýrslunni voru rekstrarniðurstöður félaga í efstu deild karla og kvenna á árunum 2020-23 greindar.
Á árinu 2023 hagnaðist Breiðablik um rúmlega 105 milljónir króna. Hagnaðurinn var þó öllu minni en árið á undan þegar félagið hagnaðist um rúmlega 157 milljónir króna.
Breiðablik græddi vel á þátttöku karlaliðsins í Sambandsdeild Evrópu en félagið fékk samtals 635 milljónir frá UEFA og fyrir félagaskipti.
ÍA, sem eru nýliðar í Bestu deild karla, högnuðust um rúmlega 88 milljónir króna og vegur salan á Hákoni Arnari Haraldssyni frá FC Kaupmannahöfn til Lille þar þungt. Skagamenn fengu rúmlega 110 milljónir króna frá UEFA og fyrir félagaskipti.
Eftir að hafa tapað 9,6 milljónum króna 2022 hagnaðist KA um 47,245 milljónir króna í fyrra.
Valur, sem tapaði rúmlega 67 milljónum króna 2022, hagnaðist um 31,5 milljónir króna í fyrra.
Íslands- og bikarmeistarar Víkings í karlaflokki töpuðu rétt tæplega sextán milljónum króna 2023.