Skoðun

Ég styð Baldur sem næsta for­seta!

Gunnar Alexander Ólafsson skrifar

Ég var mjög ánægður með að Baldur Þórhallsson bauð sig fram til embættis forseta Íslands í komandi forsetakosningu. Í þeim kosningum eru margir hæfir frambjóðendur. Að mínu mati er Baldur sá frambjóðandi sem er hæfastur til að vera forseti og sameina þjóðina.

Ég kannast við Baldur, enda erum við kollegar úr stjórnmálafræðinni. Baldur er sveitastrákur frá Rangárvallasýslu sem menntaði sig vel og lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá háskólanum í Essex í Englandi. Baldur hefur kennt stjórnmálafræði við Háskóla Íslands í tæpa þrjá áratugi og starfar í dag sem prófessor í stjórnmálafræðideild HÍ. Baldur hefur helgað sig í kennslu í alþjóðastjórnmálum, sérstaklega hvað varðar stöðu smáríkja í alþjóðamálum. Þar skiptir máli að hafa þekkingu á stöðu smáríkja eins og Íslands og hvaða möguleika þessi ríki hafa til að hámarka áhrif sín. Baldur hefur einnig látið öryggis- og varnarmál smáríkja og sérstaklega Íslands sig varða og hefur talað um að það skiptir máli að sýna ábyrgð í öryggis- og varnarmálum landsins.

Baldur hefur verið áberandi í baráttu fyrir betri heim, fordómaleysi og meira umburðarlyndi. Baldur hefur verið virkur í baráttu fyrir réttindum samkynhneigðra og hinsegin fólks. Öll viljum við búa í betri og umburðarlyndari heimi, en það gerist ekki af sjálfu sér og fyrir baráttu hans og Felix eiga þeir miklar þakkir skildar.

Baldur hefur marga prýðilega kosti og að auki á hann frábæran maka, Felix Bergsson. Ég þekki Felix ágætlega úr Vesturbæ Reykjavíkur enda einstaklega góður og glaðsinna maður.

Það skiptir máli hver verður næsti forseti, hver hefur þá sýn að nýta embættið til góðra verka og verða sameiningartákn þjóðarinnar þegar kosningum lýkur. Því treysti ég Baldri Þórhallsyni fullkomlega til að takast á við embætti forseta Íslands, þjóðinni til heilla!

Höfundur er stuðningsmaður Baldurs Þórhallssonar.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×