Skoðun

Pólítísk aflúsun

Ólafur Þór Ólafsson skrifar

Þar sem ég er á laugardagsmorgni að renna yfir morgunfréttirnar á vefmiðlum landsins sé ég auglýsingu frá einum forsetaframbjóðandanum þar sem hann selur sig út á að hafa aldrei tengst pólitískum öflum. Mér finnst þetta athyglisverð leið til að ná athygli kjósenda og um leið örlítið sorglegt að hún skuli virka. En traustið til stjórnmálanna er laskað og því ekki óvænt að frambjóðandi í fylgisleit reyni að nýta sér það.

Skipulagt pólitískt starf er grunnurinn

Virk þátttaka í stjórnmálum er grunnurinn að því lýðræðisríki sem við búum í og stjórnmálaflokkar eru faratækin fyrir ólík sjónarmið og mismunandi hagsmuni. Vissulega er flokkafyrirkomulagið langt frá því að vera fullkomið, en það er samt sem áður besta leiðin sem við eigum til að taka sameiginlegar ákvarðanir í flóknu samfélagi. Mér finnst ástæða til þess að fagna því þegar fólk stígur fram fyrir skjöldu og tekur samfélagslega ábyrgð með þátttöku í skipulögðu í pólitísku starfi. Mér finnst það líka kostur að vita af forsetaframbjóðendum sem hafa tekist á við slíka ábyrgð og það er gagnlegt til þess að átta sig á því fyrir hvað þeir standa.

Það er engin ástæða til þess að skammast sín

Ég er ekki búinn að ákveða hvert atkvæði mitt fer í þessum forsetakosningum enda góður hópur af frambærilegu fólki í framboði. Það mun líklegast fara til frambjóðanda sem hefur verið virkur þátttakandi í stjórmálum frekar en til einhvers sem vill sverja sig frá slíku. Það er nefnilega alls engin ástæða til að skammast sín fyrir að hafa tekið þátt í pólitík.

Höfundur hefur verið virkur þátttakandi í stjórnmálum í meira en 20 ár.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×