Skoðun

Það skiptir máli hver er for­seti landsins

Unnar Geir Unnarsson skrifar

Forseti Íslands er fyrst og fremst sameiningartákn þjóðarinnar, manneskja sem við treystum til að tala máli þjóðarinnar allrar, ekki síst þeirra sem ekki hafa sterkustu röddina.

Ég treysti Baldri Þórhallssyni algjörlega til að takast á við þetta vandasama og kröfuharða starf.

Við öll hljótum að vilja búa í betri heimi, en ekkert gerist af sjálfu sér og ekki alltaf á torgum úti, heldur frekar þegar fólk hittist auglitis til auglitis og talar saman. Baldur Þórhallsson hefur vakið eftirtekt fyrir baráttu sína fyrir betra samfélagi og verið virkur í baráttu fyrir réttindum samkynhneigðra og hinsegin fólks. Skref fyrir skref með þolinmæði, sanngirni og réttsýni hefur Baldur náð árangri og tekið þátt í að móta betra samfélag fyrir öll. Fyrir það eiga Baldur og Felix báðir góðar þakkir skildar.

Stjórnmálafræðingurinn Baldur Þórhallsson hefur yfirgripsmikla þekkingu á þeim tækifærum sem smáríkið Ísland stendur frammi fyrir. Líklega er hann fremstur allra fræðimanna í dag þegar kemur að málefnum smáríkja. Það skiptir máli þegar tala þarf máli Íslands að þar fari manneskja sem býr yfir slíkri þekkingu og nýtur virðingar fræðasamfélagsins en nær til allra með einlægni og ástríðu fyrir málstaðnum.

Felix Bergsson, eiginmaður Baldurs, er harðduglegur maður, vel að máli farinn og gjafmildur á góð ráð og hlýju. Hann er einhver sem ég myndi vilja sjá standa við hliðina á forseta Íslands, rétt eins og ég hef fylgst með aðdáun á frú Elizu Reid vinna frábært starf síðustu átta árin.

Baldur Þórhallsson býr tvímælalaust yfir þeim mannkostum og þekkingu sem forseti lýðveldisins þarf að hafa. Baldur er nógu fastur fyrir til að verja sjálfstæði embættisins, en hann býr einnig yfir þeirri reynslu og þroska til að hlusta á ólík sjónarmið og finna það sem sameinar okkur frekar en sundrar.

Þess vegna kýs ég Baldur Þórhallsson.

Höfundur er kjósandi.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×