Sport

„Litla Edda öskrar inn í mér“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðlaug Edda Hannesdóttir afrekaði það sem engin íslensk þríþrautarkona eða þríþrautarkarl hafa náð.
Guðlaug Edda Hannesdóttir afrekaði það sem engin íslensk þríþrautarkona eða þríþrautarkarl hafa náð. @eddahannesd

Íslenska þríþrautarkonan Guðlaug Edda Hannesdóttir mun skrifa nýjan kafla í íslenska íþróttasögu á Ólympíuleikunum í París í sumar.

Það var staðfest í gær þegar hún varð fyrsta íslenska konan sem tryggir sér farseðil á leikana í ár.

Með því verður hún jafnframt fyrst Íslendinga til að keppa í þríþraut á Ólympíuleikum.

Guðlaug Edda skrifaði um afrekið sitt á samfélagsmiðlum sínum en hún var þá í miðju þrjátíu klukkutíma ferðalagi frá Japan heim til Íslands.

Fimm vikur í Asíu

Edda tryggði sér Ólympíufarseðilinn með því að ná verðlaunasæti á þremur þríþrautarmótum í Asíu. Hún vann gull í Nepal, silfur á Filippseyjum og brons í Japan. Þrjár keppnir á fimm vikum og ferðalag um út um alla Asíu.

„Svo ánægð en líka mjög þreytt. Nú er tími til að drífa sig heim og ná endurheimt,“ skrifaði Guðlaug Edda eftir mótið um helgina.

Þá leit allt mjög vel út með Ólympíusætið og sætið var síðan staðfest í gær.

Saga hennar er líka endurkomusaga og saga um íþróttakonu sem lét mikið mótlæti ekki eyðileggja drauminn. Hún glímdi lengi við mjög erfið mjaðmarmeiðsli en hefur átt magnaða endurkomu á þessu tímabili.

Fyrsti Íslendingurinn

Það var líka dramatísk færsla hjá okkar konu þegar Ólympíusætið var í höfn.

„Þetta er staðfest. Ég var að tryggja mér sæti á Ólympíuleikunum. Ég trúi því varla að ég sé að skrifa þessi orð. Fyrsti Íslendingurinn til að komast inn á leikana í þríþraut,“ skrifaði Guðlaug Edda.

„Ég svo tilfinningasöm núna og veit eiginlega ekki hvað ég á að segja. Litla Edda öskrar inn í mér af því að þetta getur ekki verið að gerast,“ skrifaði Edda.

„Aldrei, aldrei, aldrei nokkurn tímann hættu að trúa á sjálfan þig. Sjáumst í París 31. júlí,“ skrifaði Edda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×