Enski boltinn

Ten Hag skýtur á Slot: „Fólk hefur látið of mikið með Feyenoord“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Erik ten Hag og Arne Slot mætast kannski í enska boltanum á næsta tímabili.
Erik ten Hag og Arne Slot mætast kannski í enska boltanum á næsta tímabili. getty/Michael Bulder

Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United, skaut aðeins á Arne Slot, verðandi stjóra Liverpool, og sagði að árangur hans með Feyenoord væri kannski ekki svo merkilegur.

Slot tekur til starfa hjá Liverpool 1. júní en hann tekur við liðinu af Jürgen Klopp. Slot stýrði Feyenoord í þrjú ár og gerði liðið bæði að hollenskum meisturum og bikarmeisturum.

Ten Hag, sem stýrði United til bikarmeistaratitils um helgina, er ekki jafn uppnumin af árangri Slots og margir.

„Fólk hefur látið of mikið með Feyenoord,“ sagði Ten Hag. „Þeir voru traustir í ár en ekki bestir. PSV Eindhoven var tveimur klössum betri á öllum sviðum. Þegar kemur að því að halda boltanum, setja pressu, sýna ákefð, nefndu það.“

PSV vann hollenska meistaratitilinn í vetur undir stjórn Peters Bosz.

„Bosz og fólkið hans gerði þetta upp á tíu. Félagið er líka vel samansett. PSV var svo miklu betri en hin liðin, líka miklu betri en Feyenoord.“

Ten Hag bíður nú örlaga sinna en óvíst er hvort hann heldur starfinu hjá United. Hann tók við liðinu sumarið 2022 og hefur gert það að bikarmeisturum og deildabikarmeisturum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×