Skoðun

Ég treysti dóm­greind Katrínar

Eydís Aðalbjörnsdóttir skrifar

Að Katrín fari úr valdamesta starfi Íslands sem forsætisráðherra og vilji nú vera forseti Íslands finnst mér vera meðmæli með því embætti.

Katrín hefur talað máli umhverfis og jafnréttis alla sína tíð í stjórnmálum og það þarf engin að efast um heilindi hennar, atorku og árangri við að lyfta þeim málaflokkum til vegs og virðingar. Árangurinn er kunnur langt út fyrir Ísland og öðrum þjóðum til eftirbreytni.

Vinnulag Katrínar í stjórnmálum hefur ekki einkennst af upphrópunum eða úthrópunum, heldur dugnaði, sáttfýsi og skilningi á því að leiða ólík sjónarmið til lykta sé mikilvægara heldur en að sigla öllu í strand. Fyrir það verð ég ævinlega þakklát. Þannig forseta vil ég hafa.

Ég treysti dómgreind Katrínar til að standa áfram vörð um umhverfismál og jafnréttismál í starfi forseta og gefa þjóðinni rödd þegar mikið liggur við jafnt í þeim málaflokkum sem öðrum.

Ég styð Katrínu í forsetaembættið af því ég er sannfærð um að embættið í hennar höndum mun verða Íslandi og íslenskri þjóð til sóma.

Höfundur vinnur í þágu barna hjá Reykjavíkurborg.




Skoðun

Sjá meira


×