Erlent

Í­búar varaðir við rusl- og skíta­belgjum frá Norður-Kóreu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Rusl úr belgjunum liggur á víð og dreif.
Rusl úr belgjunum liggur á víð og dreif. AP/Forsetaskrifstofa Suður-Kóreu

Yfirvöld í Suður-Kóreu hafa gefið út viðvörun til íbúa vegna loftbelgja sem yfirvöld segja bera sorp og jafnvel saur yfir landamærin frá Norður-Kóreu.

Herinn birti myndir í morgun þar sem sjá má stórar blöðrur með plastpoka hangandi neðan úr þeim. Samkvæmt Yonhap fréttaveitunni er um að ræða að minnsta kosti 150 belgi en sumir eru lentir á meðan aðrir svífa enn yfir.

Belgirnir virðast misstórir en allir bera plastpoka sem virðast innihalda rusl og drasl.AP/Forsetaskrifstofa Suður-Kóreu

Sérsveitir voru sendar á vettvang til að skoða belgina sem fundust á jörðu niðri, meðal annars til að athuga hvort um væri að ræða sprengjur eða efnavopn. 

Embættismaður innan hersins segir að svo virðist hins vegar sem pokarnir innihaldi aðeins rusl og einhvers konar saur. Meðal þess em hefur fundist eru plastflöskur, skór, og rafhlöður. 

Fólk er hvatt til þess að halda sig frá belgjunum en tilkynna um þá til lögreglu eða hersins. Yfirvöld segja um að ræða brot á alþjóðalögum og ógn við öryggi íbúa landsins.

Mögulega er um að ræða hefndaraðgerð vegna skeytasendinga frá Suður-Kóreu, þar sem einblöðungum er dreift úr lofti. Kim Kang-il, undirráðherra varnarmála í Norður-Kóreu, hafði hótað því að sendingunum yrði svarað, rusl fyrir rusl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×