Veður

Vætan minnkar smám saman og birtir til

Lovísa Arnardóttir skrifar
Það er fín færð og ágætis ferðaveður um land allt.
Það er fín færð og ágætis ferðaveður um land allt. Vísir/Vilhelm

Í nótt var rigning eða súld nokkuð víða á landinu. Fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings að vætan sé nú smám saman að minnka. Það verði væntanlega þurrt að kalla eftir hádegi og birti jafnvel upp um tíma vestanlands. Vindurinn í dag verður fremur hægur, úr norðvestri eða vestri.

Í kvöld nálgast svo úrkomusvæði úr vestri, sem er á hraðferð til austurs. Þá bætir í vindinn og búast má við suðvestan átta til 15 metrum á sekúndu í nótt og fer víða að rigna. Fyrst á vestanverðu landinu en svo verður líklega einnig rigning um tíma austantil í fyrramálið. Svo styttir upp síðdegis á morgun og léttir þá til norðan- og austanlands. Hiti 8 til 17 stig á morgun, hlýjast á Austurlandi. Nánar á vef Veðurstofunnar.

Vegir eru víðast hvar greiðfærir en best er að fylgjast með vef Vegagerðarinnar, umferdin.is, áður en lagt er af stað í ferðalag.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á fimmtudag:

Suðvestan 8-15 m/s, hvassast norðvestantil á landinu. Víða dálítil rigning framan af degi, en þurrt að kalla síðdegis og léttir þá til norðan- og austanlands. Hiti 8 til 17 stig, hlýjast á Austurlandi.

Á föstudag og laugardag:

Suðvestan 8-15 og væta með köflum, en yfirleitt þurrt og bjart norðaustan- og austanlands. Hiti breytist lítið.

Á sunnudag (sjómannadagurinn), mánudag og þriðjudag:

Vestlæg átt og víða þurrt og bjart veður, en skýjað með köflum á vestanverðu landinu. Hiti 7 til 17 stig, hlýjast á Suðausturlandi og Austfjörðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×