Skoðun

Síðasti séns

Vilborg Gunnarsdóttir skrifar

Á laugardaginn velur Íslenska þjóðin sér nýjan forseta. Hún er svo lánsöm að fá á ný, tækifæri til að velja Höllu Tómasdóttur. Þvílík gæfa að hún skyldi velja að taka slaginn aftur.

Við stöndum nú frammi fyrir því að velja aftur konu í embættið í mest spennandi forsetakosningum síðan Vigdís Finnbogadóttir var fyrst kjörin. Og við ætlum ekki að velja hvaða konu sem er.

Þær sem nú standa fremstar eru í senn glæsilegar og frambærilegar en aðeins ein ber af og það er Halla Tómasdóttir. Halla hefur sýnt þjóðinni það aftur í aðdraganda þessara kosninga hversu vel hún mun standa sig sem næsti forseti Íslands.

Hún hikar ekki við að taka afstöðu í erfiðum og viðkvæmum málum.

Hún segir alltaf það sem henni býr í brjósti.

Hún ætlar að nýta stöðu sína sem forseti til að tala máli þeirra sem minnst mega sín.

Hún ætlar að vinna að málum sem snerta jafnrétti og frið í heiminum.

Hún ætlar að beita sér fyrir því að við göngum ekki á auðlindir þannig að það komi niður á lífsgæðum komandi kynslóða.

Fyrir átta árum vorum við nokkrum dögum of sein að átta okkur á hversu frábær Halla Tómasdóttir er, en núna virðumst við vera farin að sjá ljósið. Sagt er að sígandi lukka sé best en við megum alls ekki sofna á verðinum því sigur er ekki í höfn fyrr en öll atkvæði hafa skilað sér. Því er mikilvægt að halda áfram að bera út boðskapinn og hvetja alla til að kjósa. Hver og einn þarf að skoða sitt nærumhverfi og hafa samband við sitt nánasta fólk. Ertu búin að kjósa?

Íslenska þjóðin á það skilið að fá Höllu Tómasdóttur sem forseta. Við fáum núna tækifæri til að kjósa forseta sem eftir verður tekið og mun láta til sín taka. En munum að þetta er síðasta tækifærið sem við fáum til að kjósa hana.

Ég hlakka til að ganga að kjörborðinu á laugardaginn, merkja við mína konu, minn forseta og vakna á sunnudaginn við þær góðu fréttir að Halla Tómasdóttir verði næsti forseti Íslands.

Höfundur er stuðningsmaður Höllu Tómasdóttur forsetaframbjóðanda.




Skoðun

Sjá meira


×