Skoðun

Ég ætla að brjóta blað - Ég kýs Baldur!

Þórður Vilberg Guðmundsson skrifar

Einhver skemmtilegasta og mest spennandi kosningabarátta síðustu ára á Íslandi er senn á enda runnin og á laugardag göngum við að kjörborðinu og veljum okkur forseta. Í framboði er mikið einvala lið, og flest þeirra þannig að ég get vel séð þau fyrir mér sem næsta forseta lýðveldisins.

Í þessum hópi er þó einn aðili sem ég tel að skeri sig úr – og fyrir því eru nokkrar ástæður. Frá því að Baldur Þórhallsson kynnti um framboð sitt í mars hef ég verið sannfærður um að þar sé á ferðinni einstaklingur sem mun valda þessu mikilvæga embætti vel. Þjóðin hefur á undanförnum vikum fengið að kynnast Baldri betur og eiginmanni hans Felix Bergsyni, mannkostum þeirra beggja og ég er sannfærður um að framganga þeirra að undanförnu hefur heillað marga.

„Til að lækna hatur, er best að nota ást“

Þannig sungu Gunni og Felix í lagi Felixar og Jóns Ólafssonar „Við skulum ekki rífast“ frá árinu 2002. Þessi setning hefur svo oft komið upp í hugan að undanförnu þegar ég hef hugsað til þeirrar óvægnu umfjöllunar sem komið hefur upp um Baldur vegna kynhneigðar hans í þessari kosningabaráttu. Það hefur ítrekað verið ómaklega ráðist að persónu Baldurs og Felixar og þeir opinberlega smánaðir á grundvelli kynhneigðar sinnar. Baldur hefur þurft sitja undir því að svara spurningum „virtra“ fjölmiðla um einkalíf sitt, sem í sumum tilfellum hafa verið yfirfullar af fordómum. Baldur hefur óhræddur tekist á við þessa miklu áskorun, haldið ró sinni og svarað spurningum málefnalega, en þó af nauðsynlegri festu og hvergi kvikað. Framganga hans undir þessu hefur verið án öfga eða gífuryrða, hann veit að samtal og fræðsla er öflugsta leiðin til að uppræta fordóma og besta leiðin til að nálgast hatrið er ást.

Baldur hefur einn frambjóðenda talað með skýrum hætti fyrir mikilvægi þess að Forseti Íslands beiti sér á öflugan hátt fyrir mannréttindum og leggi sitt lóð á vogarskálarnar til leiðrétta þá leiðu öfugþróun sem orðið hefur í mannréttindum í heiminum upp á síðkastið. Sem samkynhneigður einstaklingur þekkir Baldur baráttu fyrir mannréttindum vel, enda hefur hann þurft að standa í að berjast fyrir sínum eigin réttindum, sem og réttindum fjölskyldu sinnar. Hann er ekki að gera þetta í fyrsta skipti núna.

Baldur brennur fyrir mannréttindum, og það sem mikilvægast er að hann mun óhræddur beita sér fyrir þeim hvar og hvenær sem er og hann mun gera það á þann hátt sem sómi er að. Það er mikilvægt að við Íslendingar, og heimurinn allur, eignumst öflugan málsvara í þessum efnum. Af öllum frambjóðendunum 12 hefur Baldur Þórhallsson sýnt að hann sé sá sem getur best valdið því hlutverki.

Brjótum blað!

Árið 1980 höfðu Íslendingar kjark, vilja og þor til að brjóta blað í sögunni þegar þeir fyrstir þjóða völdu sér konu sem þjóðhöfðingja. Vigdís Finnbogadóttir bauð óhrædd fordómum og fáfræði byrgin í þeirri kosningabaráttu og þjóðin valdi hana að lokum. Kjör hennar vakti að vonum heimsathygli og sá kraftur sem það færði í réttindabaráttu kvenna um allan heim verður seint ofmetinn.

Íslendingar geta aftur brotið blað í sögunni á laugardaginn og orðið fyrsta þjóðin í heiminum til að kjósa sér samkynhneigðan þjóðhöfðingja. Það eina sem þarf er kjarkur, vilji og þor til að kjósa Baldur Þórhallsson til embættis Forseta Íslands. Baldur hefur, líkt og Vigdís, óhræddur boðið fordómum og fáfræði byrgin og óhræddur tekist á við það mótlæti sem honum hefur mætt. Kjör hans til forseta mun vekja heims athygli og gefa Íslendingum tækifæri til að skipa sér í fremstu röð þeirra þjóða sem vilja leggja sitt af mörkum til að berjast fyrir, og standa vörð um mannréttindi allra einstaklinga.

Ég ætla að velja með hjartanu á laugardaginn. Ég ætla að sýna kjark, vilja og þor. Ég ætla að brjóta blað og kjósa Baldur Þórhallsson – hann er minn forseti!

Höfundur er sagnfræðingur.




Skoðun

Sjá meira


×