Erlent

Þarf að greiða fyrr­verandi 137 milljarða í kjöl­far fram­hjá­halds

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Chey Tae-won þarf að greiða fyrrverandi eiginkonu sinni milljarð Bandaríkjadala.
Chey Tae-won þarf að greiða fyrrverandi eiginkonu sinni milljarð Bandaríkjadala. epa/Yonhap

Suðurkóreskur auðjöfur hefur verið dæmdur til að greiða fyrrverandi eiginkonu sinni milljarð Bandaríkjadala, jafnvirði 137 milljarða króna, í kjölfar skilnaðar þeirra.

Chey Tae-won og Roh So-young skildu fyrir meira en áratug, eftir að upp komst að Chey hefði feðrað barn með annarri konu. Málið hefur hins vegar þvælst í dómskerfinu en fjölskyldudómstóll hafnaði því að Roh ætti rétt á hlut í fyrirtæki eiginmannsins, SK Group, og annar dómstóll dæmt henni lægri upphæð.

Yfirréttur komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að Roh ætti sannarlega tilkall til hluta þeirra eigna sem hefðu orðið til á meðan 35 ára hjónabandi hennar og Chey stóð. Hún hefði bæði átt beinan þátt í því að auka virði fyrirtækisins og þá hefði það notið fjölskyldutengsla hennar en faðir hennar er Roh Tae-woo, fyrrverandi forseti Suður-Kóreu.

Dómurinn sagði einnig í niðurstöðu sinni að Chey hefði ekki sýnt neina iðrun vegna óviðurkvæðilegrar hegðunar sinnar né neina virðingu fyrir hjónabandinu. Upphæðin tæki meðal annars tillit til þeirrar þjáningar sem Roh hefði upplifað vegna framhjáhaldsins.

Lögmenn Chey segjast munu áfrýja niðurstöðunni en þess má geta að virði hlutabréfa SK Group jókst um níu prósent þegar hún lá fyrir.

BBC greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×