Skoðun

Tóbak markaðs­sett fyrir ungt fólk

Guðlaug B. Guðjónsdóttir skrifar

Alþjóðlegi tóbakslausi dagurinn er 31. maí og hefur hann verið haldinn allt frá 1987 af aðildarríkjum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO). Tilgangurinn er að minna á skaðsemi reykinga og annarar tóbaks- og nikótínnotkunar á fólk, almannaheilbrigði, samfélög og umhverfið í heild sinni.

Í ár er áherslan lögð á að vekja athygli á skaðlegum áhrifum markaðssetningar tóbaks­framleiðenda á ungmenni. Tugir milljóna ungmenna á aldrinum 13-15 ára nota einhverja tegund tóbaks, þar af um 4 milljónir í Evrópu.

Tóbaksframleiðendur reyna að finna nýja viðskiptavini í stað þeirra sem látast eða hætta tóbaksnotkun. Vöruþróun tóbaksframleiðenda og auglýsingaaðferðir höfða til barna og ungmenna, einkum gegnum samfélagsmiðla og streymisveitur. Þetta ógnar bæði heilsu þeirra og velferð. Lagasetning og forvarnaraðgerðir til að stemma stigu við nýjum tóbaks- og nikótínvarningi eru oft langt á eftir aðgerðum framleiðenda tóbaks.

Rafsígarettur hafa notið mikilla vinsælda hjá ungu fólki. Gert er ráð fyrir að um 13% ungmenna í Evrópu noti rafsígarettur samanborið við 2% fullorðinna. Í sumum ríkjum Evrópu er rafsígarettunotkun ungmenna mun algengari en sígarettunotkun.

Tóbak leiðir til dauða allt að helmings þeirra sem nota það, fyrir utan langvinna vanheilsu og veikindi. Tóbak drepur á heimsvísu yfir 8 milljónir manna á ári hverju. Að því er varðar krabbamein má minna á að tóbaksnotkun tengist að minnsta kosti tuttugu tegundum krabbameins og er sú orsök sjúkdómsins sem helst er hægt er að koma í veg fyrir. Tóbak veldur um fjórðungi allra dauðsfalla af völdum krabbameins.

Tóbaksframleiðendur hafa einbeittan ásetning til að selja ungu fólki lífshættulegar vörur, sem auk þess eru ávanabindandi og valda fíkn. Þeir sem standa að alþjóðlega tóbakslausa deginum 31. maí 2024 hvetja ríkisstjórnir og þá sem berjast gegn tóbaksnotkun til að vernda unga fólkið fyrir skefjalausri ásókn framleiðenda tóbaks og til að láta þá bera ábyrgð á því tjóni sem þeir valda.

Höfundur er framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags höfuðborgarsvæðisins.




Skoðun

Sjá meira


×