Skoðun

Viddi, Bósi Ljós­ár og Baldur Þór­halls

Heimir Hannesson skrifar

Fyrir nokkrum mánuðum hringdi síminn á skrítnum tíma, eins og svo oft áður. Áður en ég leit á skjáinn vissi ég auðvitað að þetta væri Janus vinur minn. Það hringir enginn annar í mig á þeim tímum.

Við Janus höfðum rætt það okkar á milli að ef við myndum taka að okkur kosningabaráttu í komandi forsetakosningum, myndum við gera það saman. Einn slagur í viðbót inn í sólsetur miðaldursáranna. One for the road hjá Vidda og Bósa Ljósár.

Símtalið fjallaði auðvitað um þetta. Valli vinur okkar hafði heyrt í Janusi og var með smá pælingu …

Skömmu seinna vorum við mættir á Starhaga til Baldurs og Felix og ekki löngu síðar stóðum við í Bæjarbíó. Það var fyrir 72 dögum síðan.

Ég var í stjórnmálafræði fyrir mörgum árum og forðaðist eins og heitan eldinn að lenda í hakkavél hins ógurlega Baldurs Þórhallssonar. Ég hafði á þeim tíma fullkomnað þá list að fá mikið fyrir lítið. Baldur gaf lítið fyrir þá list. Hann gerði kröfur til nemenda sem var eiginleiki sem ég vildi alls ekki þurfa að eiga við á þessum árum.

Í kosningum þar sem frjálshyggjumenn styðja formann Vinstri grænna og vinstri menn styðja fyrrum formann Viðskiptaráðs kemur manni auðvitað ekkert á óvart lengur - nema Baldur Þórhallsson og hans fjölskylda.

Baldur tók við bóndabæ afa síns þegar afi hans veiktist. Baldur var þá 13 ára gamall. Þá hafði hann þegar unnið í skeifnaverksmiðju og við malbikun. Baldur er sveitamaður par exellence. Ef það þarf að gera eitthvað, þá er það gert sama hvað. Baldri sjálfum finnst þetta reyndar ekkert sérstaklega merkilegt. Hann bara gerði það sem þurfti að gera.

Minn árgangur er líklega með þeim allra síðustu þar sem orðið hommi var notað sem níðyrði í grunnskólum. Árgangur Baldurs var það ekki. Það hefur verið mér veruleg uppljómun og lærdómsríkt að fylgjast með viðbrögðum samkynhneigðra við framboði Baldurs. Þeirra eldri, sem ég horfði á fella tár yfir tilhugsuninni einni að samkynhneigður maður gæti átt séns í Bessastaði, og þeirra yngri, sem finnst það bara ekkert stórmál að Baldur sé hommi. Ég varð meira að segja þess heiðurs aðnjótandi í síðustu viku að fá að tilkynna einum að Baldur væri samkynhneigður og að Felix væri eiginmaður hann. Sá sagði að slagorðið Baldur&Felix „meikaði vissulega meira sens“ fyrir honum þegar sú staðreynd lá fyrir.

Í kappræðunum á RUV í gærkvöldi sagði Baldur að hann og eiginmaður hans hefðu barist fyrir því að fá að vera fjölskylda. Þar vantaði ýmislegt í söguna. Þegar Baldur og Felix tóku saman þurftu þeir að berjast fyrir því að fá að ala upp börnin sín saman. Þeir fengu að heyra að börn gætu ekki átt tvo pabba. Ég hugsa bara til Margrétar Báru stjúpdóttur minnar og ímynda mér þann hrylling og viðbjóð að aðrir segðu við hana að ég ætti ekki rétt á að vera hluti af hennar lífi.

Baldur og Felix tóku þennan slag, og unnu.

Þeir máttu ekki skrá sig í sambúð eða samskatta sig. Þeir tóku þann slag og unnu. Þeir börðust fyrir staðfestri samvist og höfðu betur. Þeir börðust fyrir því að fá að gifta sig, og sigruðu.

Þessi sami maður stóð svo fyrir stút fullum sal á Selfossi og sagðist vera forsetaframbjóðandi, en ekki hommi í framboði.

Eftir kappræður og samtöl undanfarnar vikur blasir það hið minnsta við að það eru tveir frambjóðendur sem uppfylla hæfnikröfur sem ég geri til forsetaframbjóðenda. Sem Sjálfstæðismaður gæti ég aldrei nokkurn tímann hugsað mér að kjósa annan þeirra. Hinn er Baldur Þórhallsson.

Ég er búinn að eyða núna rúmum tveimur mánuðum með Baldri, Felix, Álfrúnu Perlu, Guðmundi, Árna Frey og Blævi, svo ekki sé minnst á barnabörnin þrjú. Þarna er alíslensk kjarnafjölskylda sem ég vil framar nokkru öðru að vermi fjölskyldurými Bessastaða næstu ár.

Nú veit ég líka að hakkavélin ógurlega í stjórnmálafræðideildinni gerir ekki minni kröfur til sjálfs síns en nemenda sinna. Svo miklar raunar, að þegar hann frétti að hann væri á leiðinni í viðtal þar sem hann gæti hugsanlega verið spurður út í uppáhalds bíómyndina sína settist hann niður með Tinnu og glósaði Wikipedia síðu bíómyndarinnar. Það kom þeim sem þekkja vel til Baldurs nokkuð á óvart að heyra hann síðan þylja upp í beinni á Rás 2 leikstjóra, alla helstu aðalleikara, og öll verðlaun sem myndin Brokeback Mountain hlaut þegar hún kom út … fyrir 19 árum …

Baldur gerir nefnilega ekki nokkurn skapaðan hlut með hangandi hendi.

Ég ber lítið traust til skoðanakannana undanfarið en það blasir auðvitað við að það er á brattann að sækja. En atkvæði til Baldurs er ekki glatað atkvæði. Síður en svo. Að tryggja Baldri góða kosningu sendir sterk skilaboð til þeirra sem hafa upplifað lokaðar dyr sem stóðu öðrum opnar. Að á Íslandi er svo sannarlega allt hægt.

… og svo er hann vinur minn og ég vil mjög mikið og innilega að honum gangi vel.

Kjósum Baldur í dag.

Höfundur er símavinur Janusar Guðmundssonar og stuðningsmaður Baldurs Þórhallssonar.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×