Fótbolti

Jafn­tefli í báðum leikjunum í Lengju­deildinni

Smári Jökull Jónsson skrifar
Oliver Heiðarsson skoraði fyrir ÍBV í dag.
Oliver Heiðarsson skoraði fyrir ÍBV í dag. Vísir/Anton Brink

Tveir leikir fóru fram í Lengjudeild karla í knattspyrnu. Fjölnismenn sóttu stig til Vestmannaeyja og á Dalvík mættust heimamenn og Grótta.

ÍBV tók á móti Fjölni í Vestmannaeyjum í dag en mikið fjör er í Eyjum um helgina í tilefni sjómannadagsins. 

Það voru hins vegar gestirnir sem komust yfir á 9. mínútu þegar Máni Austmann Hilmarsson skoraði en ÍBV svaraði með tveimur mörkum á stuttum tíma. Fyrst skoraði Oliver Heiðarsson og Guðjón Ernir Hrafnkelsson kom ÍBV yfir á 16. mínútu leiksins. Fjörug byrjun.

Staðan í hálfleik var 2-1 en Axel Freyr Harðarson jafnaði metin fyrir Fjölni á 75. mínútu og þar við sat. Lokatölur 2-2 og ÍBV er í 5. sæti deildarinnar en Fjölnir í 2. sæti.

Á Dalvík tók Dalvík/Reynir á móti Gróttu frá Seltjarnarnesi. Heimamenn komust í 2-0 með mörkum frá Áka Sölvasyni og Amin Guerrero Touiki í fyrri hálfleik. Grótta kom hins vegar til baka eftir hlé. Fyrst minnkaði Gabríel Hrannar Eyjólfsson muninn og Damian Timan jafnaði á 82. mínútu.

Grótta er í 3. sæti deildarinnar eftir jafnteflið en Dalvík/Reynir í 6. sæti.

Upplýsingar um markaskorara eru fengnar af Fótbolti.net




Fleiri fréttir

Sjá meira


×