Kristín Ólafsdóttir fréttamaður ræddi við Eygló á veitingastaðnum Dass við Vegamótastíg í Reykjavík þar sem kosningapartý forsetaframbjóðandans Ásdísar Ránar fer fram.
„Ég er alveg ofboðslega stolt af henni dóttur minni. Hún er búin að standa sig alveg ótrúlega vel. Hvort sem hún vinnur eða hvað þá er þetta góður skóli fyrir hana fyrir framtíðina,“ segir Eygló.
Hvernig er búið að vera að fylgjast með henni í kappræðum, á nýjum vettvangi?
„Bara æðislegt. Hún er svo pollróleg að það hálfa væri nóg. Það er eins og henni bregður ekki neitt. Hún svarar vel fyrir sig, hún er mjög dugleg í því.“
Kemur það þér á óvart hvað henni hefur gengið vel?
„Alls ekki. Ég átti alveg von á þessu.“
Hvernig verður kvöldið hjá þér?
„Ég er náttúrulega bara að fylgjast með og gá hvað gerist. Það er gaman að þessu.“
Hvað ætlar þú að vaka lengi? Ætlarðu að vaka eftir lokatölum eða hvernig verður þetta?
„Ég hugsa að ég vaki eitthvað fram eftir og fylgist með. Ég verð örugglega til svona tvö, þrjú.“
Hvernig er fyrir þig að vera komin aftur aðeins í sviðsljósið?
„Mér finnst það bara alveg frábært. Þetta er bara búið að vera gaman,“ segir Eygló.