Innlent

Veit ekki hvað tekur við en byrjar á kaffi­bolla

Árni Sæberg skrifar
Katrín Jakobsdóttir ávarpar stuðningsfólk sitt á Grand hótel seint í gærkvöldi.
Katrín Jakobsdóttir ávarpar stuðningsfólk sitt á Grand hótel seint í gærkvöldi. Vísir/Anton Brink

Katrín Jakobsdóttir hefur óskað Höllu Tómasdóttur til hamingju með kjör til embættis forseta Íslands. „Nú taka við ný ævintýri hjá mér sem ég veit ekkert hver verða. En fyrst ætla ég að fá mér kaffi og njóta þess að vera hér og nú.“

Í færslu á Facebook óskar Katrín Höllu velfarnaðar í embætti forseta og segist vita að henni muni farast það vel úr hendi.

Stolt af drengilegri baráttu

Katrín þakkar öllum þeim sem studdu hana í kosningabaráttunni. „Ég er stolt af minni baráttu sem var heiðarleg og drengileg, jákvæð og uppbyggileg og háð með reisn. Ólíklegasta fólk tók höndum saman með gleðina að vopni þannig að baráttan var alltaf skemmtileg og gefandi.“

Hún hafi eignast nýja vini í þessari baráttu, endurnýjað kynnin við gamla vini og félaga og eignast fjöldann allan af nýjum frændum og frænkum, sem verði gaman að kynnast betur. 

Ekki vitund þreytt

„Ég hef aldrei fengið jafn margar hlýjar kveðjur og faðmlög þannig að á þessum sunnudagsmorgni er ég ekki vitund þreytt heldur full orku og spennt fyrir framtíðinni. Þetta var einfaldlega frábært ferðalag með góðu fólki,“ segir Katrín og þakkar vinum sínum fyrir að vera til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×