„Hún á eftir að sinna þessu þýðingamikla hlutverkinu af alúð og metnaði. Megi gleði og gæfa fylgja kjöri hennar fyrir land og þjóð,“ segir Halla Hrund í færslu á Facebook-síðu sinni um nýkjörinn forseta.
Halla þakkar stuðningsfólki sínu stuðninginn. „Þið hafið umvafið þessa kosningabaráttu eins og óskasteinar á sporbaug. Þvílíkur dugnaður og kraftur. Hjálpsemi og húmor. Heilindi og umhyggja. Takk fyrir allt!,“ segir Halla og að þeim hafi tekist, í sameiningu, að setja mikilvægi náttúruauðlinda okkar og hugvits á dagskrá.
„Það er því með hjartað fullt af þakklæti sem ég held inn í þennan fallega sunnudag og hugsa hlýlega til tímans að baki. Við skulum svo sannarlega vera til staðar fyrir hvert annað, leggjast á árarnar þegar á móti blæs og hvetja ætíð til góðra verka fyrir Ísland. Því þannig eru björtustu tímar lýðveldisins framundan,“ segir Halla Hrund.