Fótbolti

Fenerbahce stað­festir Mourinho

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Mourinho reynir nú fyrir sér í tyrknesku deildinni.
Jose Mourinho reynir nú fyrir sér í tyrknesku deildinni. Getty/Jonathan Moscrop

Jose Mourinho verður næsti þjálfari Fenerbahce. Tyrkneska félagið staðfesti þetta óformlega á miðlum sínum i dag.

Mourinho var á úrslitaleik Meistaradeildarinnar á Wembley í gærkvöldi en flaug til Istanbul í dag.

Fenerbahce birti myndir af honum í flugvélinni á leið til Tyrklands sem og myndband frá þjálfaraferli Portúgalans.

Hinn 61 árs gamli Mourinho mun taka við starfi Ismail Kartal sem hætti á föstudaginn. Liðið endaði í öðru sæti í tyrknesku deildinni á eftir Galatasaray þrátt fyrir að hafa náð í 99 stig og aðeins tapað einum leik.

Mourinho hefur verið atvinnulaus síðan í janúar þegar ítalska félagið Roma lét hann fara. Mourinho hefur áður verið knattspyrnustjóri hjá félögum eins og Chelsea, Internazionale, Real Madrid og Manchester United.

Hann er eini knattspyrnustjórinn sem hefur unnið allar þrjár Evrópukeppnirnar, Meistaradeildina, Evrópudeildina og Sambandsdeildina. Alls hefur Mourinho unnið 21 titla á 24 árum sínum sem knattspyrnustjóri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×