Fótbolti

„Skiptir ekki máli hvort ég sé þungur eða léttur, ég skora alltaf“

Árni Jóhannsson skrifar
Ísak Snær Þorvaldsson skoraði seinna mark Breiðabliks.
Ísak Snær Þorvaldsson skoraði seinna mark Breiðabliks. Vísir/Pawel

Annar markaskorara Breiðabliks var að vonum sáttur með leik liðsins í kvöld og eigin frammistöðu. Ísak Snær Þorvaldsson skoraði seinna mark gestanna í byrjun seinni hálfleiks til að tryggja öll stigin fyri Breiðablik í 2-0 sigri þeirra í Kórnum í kvöld.

Andri Már Eggertsson náði tali af Ísaki strax eftir leik og spurði hvaða þýðingu sigurinn í grannaslagnum hefur fyrir Breiðablik.

„Það er bara mjög mikilvægt. Það vita það allir að þetta er stór slagur á milli liðanna. Það var erfitt að opna þá í byrjun en við hefðum átt að klára þennan leik fyrr.“

Ísak var á því að markið sem Blikar náðu að skora í lok fyrri hálfleiks hafi gert það að verkum að leikurinn opnaðist.

„Við héldum boltanum vel í fyrri hálfleik en það gekk ekki að skapa neitt þannig séð. Mér fannst það samt bara tímaspursmál hvenær við næðum opnuninni og við þurftum að sýna þolinmæði.“

Ísak skoraði annað mark leiksins eins og áður segir og var hann beðinn um að lýsa markinu og svo fagninu sem fylgdi í kjölfarið.

„Þetta var bara gott flikk hjá Aroni og ég náði góðu skoti í fyrsta“, sagði Ísak til að lýsa markinu og fór síðan að brosa út að eyrum þegar talið barst að fagninu.

„Það eru bara allir að blaðra um að ég sé ekki nógu góður og eitthvað. Það var bara tímaspursmál hvenær myndi kvikna á mér. Það kviknaði á mér í dag.“

En finnst Ísaki hann hafa fengið ósanngjarna gagnrýni?

„Já og nei. Ég er náttúrlega búinn að vera þungur. Það skiptir ekki máli hvort ég sé þungur eða léttur, ég skora alltaf og ég er bara ánægður.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×