Fótbolti

Neymar hló að Ronaldo

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Neymar varð tvöfaldur meistari með Al Hilal á tímabilinu þrátt fyrir að missa af stærstum hluta þess vegna meiðsla.
Neymar varð tvöfaldur meistari með Al Hilal á tímabilinu þrátt fyrir að missa af stærstum hluta þess vegna meiðsla. getty/Yasser Bakhsh

Ýmsir höfðu gaman að óförum Cristianos Ronaldo í úrslitum konungsbikarsins í Sádi-Arabíu, meðal annars Neymar.

Al Nassr tapaði fyrir Al Hilal í vítaspyrnukeppni, 5-4, í úrslitaleik konungsbikarins á föstudaginn.

Ronaldo var með böggum hildar eftir leikinn enda þýddi tapið að hann vinnur engan titil á þessu tímabili.

Stuðningsmenn Al Hilal skemmtu sér hins vegar konunglega yfir óförum Ronaldos og kölluðu nafn Lionels Messi í sífellu, eins og áhorfendur andstæðinga Al Nassr gera jafnan á leikjum.

Neymar er leikmaður Al Hilal en glímir við meiðsli og sat uppi í stúku þegar samherjar hans tryggðu sér titilinn á föstudaginn. Hann hafði greinilega gaman að háðsglósum stuðningsmanna Al Hilal í garð Ronaldos og sást hlæja þegar nafn Messis var kallað.

Neymar sleit krossband í hné í leik með brasilíska landsliðinu í október og hefur verið frá keppni síðan þá. Hann náði aðeins að leika þrjá leiki með Al Hilal áður en hann meiddist.

Ronaldo skoraði ekki í úrslitaleiknum á föstudaginn en nýtti sína spyrnu í vítakeppninni. Yassine Bounou, markvörður Al Hilal, var hetja sinna manna því hann varði tvær síðustu spyrnur leikmanna Al Nassr.

Auk þess að vinna konungsbikarinn vann Al Hilal sádiarabísku úrvalsdeildina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×