Tónlist

Krefjandi að semja tón­list um of­beldi sem þolandi

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Guðlaug Sóley, Gugusar, var að gefa út lagið Merki úr sýningunni Orð gegn orði.
Guðlaug Sóley, Gugusar, var að gefa út lagið Merki úr sýningunni Orð gegn orði. Vísir/Vilhelm

„Það gat verið erfitt að horfa til baka sem þolandi ofbeldis og nýta mína persónulega reynslu til að semja fyrir leikhúsið,“ segir tónlistarkonan Gugusar um lagið Merki sem hún var að senda frá sér. Lagið er úr sýningu Þjóðleikhússins Orð gegn orði sem hefur slegið í gegn.

Hér má hlusta á lagið Merki:

Klippa: Gugusar - Merki

„Þetta verkefni var ótrúlega skemmtilegt en rosa krefjandi líka. Þetta er fyrsta leikhúsverkefnið mitt. Þetta er þungt verk og það var heiður að fá að semja tónverk fyrir svona mikilvæga sýningu,“ segir gugusar sem heitir réttu nafni Guðlaug Sóley.

Nýtti persónulega reynslu í lagasmíðina

Gugusar hefur komið víða að í tónlistarbransanum og byrjaði þrettán ára gömul að semja.

„Þetta er fyrsta lag sem ég mixa sjálf. Ég vildi fá að prófa það en það var krefjandi og langt ferli. Það var margt sem ég þurfti að læra til þess að mixa,“ segir Gugusar en hún hefur fram að þessu alltaf pródúserað og samið efnið sitt sjálf en fengið aðstoð við lokaferlið.

„Ég er mjög fegin að það sé komið út núna. Fólk er búið að senda á mig, Ebbu Katrínu og Þóru leikstjórann hvenær lagið komi út og það er gaman að heyra að fólk vilji heyra það aftur. Svo það er gott að koma því út. 

Á sama tíma gat verið erfitt að horfa til baka sem þolandi ofbeldis og nýta mína persónulega reynslu til að semja fyrir leikhúsið. Ég held að það hafi tekist vel þar sem ég skrifaði beint frá hjartanu. Ég er mjög stolt af þessu verkefni.“

Vanari því að vinna ein

Ásamt því að spila víða hérlendis og erlendis hefur Gugusar tekið upp tvær plötur og hlotið ýmsar tilnefningar og verðlaun fyrir tónlist sína. Hún segist þakklát fyrir þá áskorun sem leikhúsið var.

„Þetta var svo skemmtilegt verkefni og ég sakna þess strax. Það var svo gaman að breyta hugmyndum yfir í lög og sjá það svo lifna við á sviðinu. Það er gaman að fá að gera tónlist fyrir einhvern annan heim sem ég er óvön að gera og að fá að vinna með öðru fólki. Ég vinn mikið tónlistina mína ein svo það er gaman að fá athugasemdir og breyta til og svona.“

Það er ýmislegt á döfinni hjá þessari tónlistarkonu.

„Ég ætla að halda áfram að sinna tónlistinni í sumar. Ég er á fullu að vinna í heilli plötu fyrir alla tónlistina sem ég samdi fyrir Orð gegn orði. Mig langar að gefa hana út með öllum lögum í sýningunni og einnig með demóum úr sama hljóðheimi sem er ekki að finna í sýningunni. 

Annars er ég líka að vinna í annarri plötu fyrir Gugusar. Ég hlakka til að gefa út meiri tónlist og gigga í sumar,“ segir Gugusar full tilhlökkunar að lokum.

Gugusar var viðmælandi í Vísisþáttunum Kúnst í fyrra. Viðtalið má sjá í spilaranum hér fyrir neðan:


Tengdar fréttir

„Fólk hefur þurft að öskra ansi hátt ansi lengi“

„Ég held að leikhús geti breytt fólki,“ segir leikkonan Ebba Katrín Finnsdóttir. Hún fer með aðalhlutverk í einleiknum Orð gegn orði og hefur hlotið mikið lof gagnrýnenda fyrir. Blaðamaður hitti Ebbu Katrínu og fékk að heyra frá hennar vegferð.

Fullur salur af lög­­mönnum á hár­beittum ein­­leik

„Ég trúi því að sýningin efli samkennd sem er að mínu mati aðalhlutverk og tilgangur leikhússins – að tengja okkur við það manneskjulega í okkur sjálfum frekar en að lúffa mennskunni í hörku heimsins. Það er svo ógeðslegt ofbeldi í gangi í heiminum núna og því allra nauðsynlegasta sem við getum gert er að hlúa að náungakærleiknum,“ segir Þóra Karítas Árnadóttir leikstjóri og leikkona. 

„Eins og ég sé að dansa sársaukann frá mér“

„Ég verð eiginlega ótrúlega lítið stressuð fyrir gigg og er meira bara spennt,“ segir tónlistarkonan Guðlaug Sóley, betur þekkt sem Gugusar. Hún er að fara að spila á bransahátíðinni Eurosonic í Groningen, Hollandi í vikunni ásamt því að troða upp á háhýsaklúbbi í Amsterdam. Blaðamaður ræddi við Gugusar, sem var sömuleiðis að senda frá sér lagið Ekkert gerðist.

„Hef aldrei opnað mig svona áður“

„Ég hef fengið mjög góð viðbrögð og margir að segja að þetta hafi hjálpað öðrum sem eru í svipuðum aðstæðum, sem er alltaf gott að heyra,“ segir fjöllistakonan Gugusar um lagið Vonin sem hún sendi frá sér fyrr á árinu þar sem hún opnar sig um erfitt samband.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×