Innlent

Tvær her­þotur og 120 liðs­menn NATO komin til landsins

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
Fjórar F-15 herþotur frá Bandaríkjunum munu sinni loftrýmisgæslu hér á landi þar til í lok júnímánaðar.
Fjórar F-15 herþotur frá Bandaríkjunum munu sinni loftrýmisgæslu hér á landi þar til í lok júnímánaðar. LANDHELGISGÆSLAN

Tvær F-15 herþotur og 120 liðsmenn Atlantshafsbandalagsins (NATO) komu til landsins í dag til að sinna loftrýmisgæslu NATO og hefðbundnum æfingum hérlendis eins og hefur tíðkast undanfarin ár. 

Þetta staðfestir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, í samtali við Vísi en tvær herþotur til viðbótar eru væntanlegar til landsins. Gert er ráð fyrir aðflugsæfingum á varaflugvöllum á Akureyri og Egilsstöðum á næstu dögum. 

Flugsveitin hefur aðsetur á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli ásamt flugsveitum aðildarríkja NATO en varnarmálasvið Landhelgisgæslunnar annast framkvæmd verkefnisins í samstarfi við Isavia.  Reiknað er með að loftrýmisgæslunni ljúki í lok júní.

Spurður hvort að það komi til þess að fresta þurfi aðflugsæfingum í vikunni vegna veðurskilyrða segir Ásgeir það ekki liggja fyrir að svo stöddu. „Ákvörðun um það er tekin að morgni hvers dags svo við þurfum bara að sjá til,“ segir Ásgeir. Eins og greint hefur verið frá hefur Veðurstofa Íslands gefið út appelsínugula veðurviðvörun fyrir kvöldið og morgundaginn á Norðurlandi, Austurlandi og Suðurlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×