Erlent

Fékk mjólkur­hristing í and­litið við upp­haf kosninga­bar­áttunnar

Kjartan Kjartansson skrifar
Ljóshærða konan til vinstri á myndinni skvetti því sem virtist vera mjólkurhristingur framan í Nigel Farage í Clacton í Essex.
Ljóshærða konan til vinstri á myndinni skvetti því sem virtist vera mjólkurhristingur framan í Nigel Farage í Clacton í Essex. Vísir/EPA

Ung kona kastaði mjólkurhristingi í andlitið á Nigel Farage þegar hann hóf kosningabaráttu sína fyrir þingkosningar í Bretlandi í dag. Farage sagði skóla landsins „eitra“ hugi ungs fólks í heimsókn sinni í Essex.

Uppákoman átti sér stað fyrir utan Wetherspoons í bænum Clacton í Essex í dag. Myndir sýna unga konu skvetta drykk sem virðist vera mjólkurhristingur framan í frambjóðandann. The Guardian hefur eftir götublaði að drykkurinn hafi verið bananamjólkurhristingur frá skyndibitastaðnum McDonald's.

Farage tilkynnti að hann ætlaði að bjóða sig fram til þings fyrir Umbótaflokkinn í gær. Hann hafði áður sagst ætla að sitja hjá og einbeita sér að því að hjálpa Donald Trump vini sínum að ná kjöri sem forseti Bandaríkjanna í haust.

Farage með mjólkurhristinginn í andlitinu. Hann er ýmsu vanur í þeim efnum eftir sjö misheppnuð framboð til þings í gegnum tíðina.Vísir/EPA

Í Clacton sakaði Farage Íhaldsflokkinn og Verkamannaflokkinn um að vera ekki raunverulega þjóðholla. Íhaldsflokkurinn hefði brugðist trausti kjósenda útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Þá sagði hann að skólar eitruðu hugi ungmenna landsins og segðu þeim að skammast sín fyrir sögu Bretlands.

Umbótaflokkurinn hefur mælst með um tíu prósent fylgi í könnunum fyrir þingkosningar sem far afram 4. júlí. Allt stefnir í að Íhaldsflokkurinn, sem hefur verið í ríkisstjórn frá 2010, bíði algert afhroð. Flokkurinn mælist nú meira en tuttugu prósentustigum á eftir Verkamannaflokknum.


Tengdar fréttir

Fara­ge snýst hugur og býður sig fram til þings

Nigel Farage, einn helsti hvatamaðurinn að útgöngu Breta úr Evrópusambandinu, ætlar að bjóða sig fram til þingsetu í kosningunum sem fara fram í næsta mánuði. Upphaflega ætlaði Farage að sitja hjá og hjálpa Donald Trump vini sínum að ná kjöri í Bandaríkjunum.

Farage ítrekaði hatur sitt á ESB í kveðjuræðu

Bretar hafa ellefu mánuði til að ná samkomulagi um framtíðar fyrirkomulag samskipta sinna við Evrópusambandið eftir að Bretland yfirgaf sambandið formlega klukkan ellefu í gærkvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×