Erlent

Þúsundir heimilis­lausra fluttir frá París í að­draganda Ólympíu­leika

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Ólympíuleikarnir fara fram í París 26. júlí til 11. ágúst. 
Ólympíuleikarnir fara fram í París 26. júlí til 11. ágúst.  EPA

Þúsundir heimilislausra manna hafa verið fluttir frá París og nágrenni sem hluti af hreingerningaraðgerð vegna Ólympíuleikanna sem fara fram í borginni í sumar. 

Meðal þeirra sem fluttir hafa verið á brott eru flóttamenn, fjölskyldur og börn í viðkvæmri stöðu, að því er kemur fram í yfirlýsingu samtakanna Le Revers de la Médaille sem The Guardian hefur eftir. Þá hefur lögregla leyst upp starfsemi kynlífsverkafólks og fíkiefnaneytenda á svæðum þar sem það hélt til og hafði aðgengi að heilbrigðisþjónustu.

Þá segir að niðurrif yfirvalda á tjaldbúðum heimilislausra í París og nágrenni hafi færst í aukana síðastliðið ár. Á rúmu ári hafi hátt í þrettán þúsund heimilislausir Parísarbúar verið færðir úr tjaldbúðum sínum. 

Paul Alauzy, talsmaður mannúðarsamtakanna Médecins du Monde, segir borgaryfirvöld í París hafa gerst sek um „félagslegar hreinsanir“ (e. social clensing) á viðkvæmasta hópi borgarinnar, í þeim tilgangi að fegra ímynd borgarinnar fyrir ólympíuleikana. 

Hann segir fólkinu hafa verið ekið með rútum í aðrar tjaldbúðir í hæfilegri fjarlægð frá borginni sem skammtímalausn á vandanum. 

„Ef þetta væri göfug lausn á vandamálinu væri fólk að berjast fyrir sæti í þessum rútum, sem það er ekki að gera. Við erum hægt og rólega að gera lífið ómögulegt fyrir þetta fólk,“ segir Alauzy. 

Anne Hidalgo, borgarstjóri í París, segir borgarstjórn hafa í mörg ár þrýst á ríkisstjórn Frakklands, sem ber ábyrgð á neyðarskýlum, að leggja fram áætlun til þess að hýsa þá 3600 íbúa Parísar sem eru heimilislausir. Í fyrra fullyrti hún að engum yrði gert að yfirgefa borgina gegn eigin vilja. 

Hún segir málið ekki á ábyrgð borgarstjórnar að skjóta skjólshúsi yfir heimilislausa en þrátt fyrir það geri borgaryfirvöld meira en gott þyki í þeim málum. Í hverri viku sjái borgarstjórn um að hýsa þúsundir heimilislausra. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×