Hreinn Hjartarson, verkefnastjóri hjá Landsvirkjun, segir starfsmenn á starfstöðinni vera öllu vanir en að svona veður sé heldur óvanalegt á þessum árstíma. Hann bendir á að Landsvirkjun hafi neyðst til að setja nagladekk aftur undir sumar vinnubifreiðarnar til að tryggja öryggi starfsmanna. Hann segir jafnframt að sumir hafi skilið vinnubifreiðarnar eftir heima og farið á einkabílum í vinnuna sem voru betur útbúnir fyrir veðrið.
„Þetta gæti verið með því versta sem menn hafa séð á þessum árstíma. Menn muna ekki eftir svona löngu kuldahreti.“
Hreinn tekur fram að það sé mjög mikill vindur á svæðinu og snjóblinda og bendir á að þegar að hann ók heim til Húsavíkur eftir vinnu í dag sá hann ekki nema eina stiku fram fyrir sig á veginum. Hann tekur þó fram að slæma veðrið hafi ekki áhrif á vinnu né skap starfsmanna sem hafa haldið ótrauðir áfram í hlýjunni innandyra í dag.