Ráðgjafanefndin samanstendur af fjölda óháðra sérfræðinga sem komu saman í gær og ræddu mögulega notkun MDMA, sem er betur þekkt undir götunöfnunum e-pilla, alsæla eða Molly, sem hluta af meðferð gegn áfallastreituröskun.
Sérfræðingarnir voru sammála um að notkun efnisins sem meðferðarúrræðis fæli í sér spennandi möguleika en á hinn bóginn skorti enn á rannsóknir. Þá guldu þeir einnig varhug við mögulegri misnotkun og sögðu ekki ljóst hvernig FDA gæti samþykkt notkun lyfsins án þess að hafa vald til að kveða á um samhliða samtalsmeðferð.
Niðurstaða ráðgjafanefndarinnar er ekki bindandi og Matvæla- og lyfjastofnunin hefur farið gegn ráðleggingum hennar. Sérfræðingar innan stofnunarinnar hafa hins vegar einnig varpað fram efasemdum um fýsileika þess að samþykkja MDMA sem meðferðarúrræði.
Gríðarmikil vakning hefur orðið um möguleika þess að nota hugvíkkandi efni sem meðferð við geðsjúkdómum og milljörðum verið fjárfest í fyrirtækjum á þessu sviði.
Lykos, fyrirtækið sem sótti um leyfið, segist munu halda áfram að vinna málið í samstarfi við FDA enda sé bráð nauðsyn á fleiri úrræðum við áfallastreituröskun.