Skoðun

Bóka­hilla er ekki bóka­safn

Unnar Geir Unnarsson skrifar

Bókahilla er ekki bókasafn, bókasafn er samfélag.

Það að hafa aðgang að góðu bókasafni eykur lífsgæði. Það að hafa aðgang að góðu bókasafni stuðlar að bættri lýðheilsu. Það að hafa aðgang að góðu bókasafni eru sjálfsögð mannréttindi.

Almenningsbókasöfnin eru hluti af lögbundinni þjónustu sveitarfélaganna, en það er ekki nóg til að hlífa þeim frá niðurskurðarhnífnum. Í Fjarðabyggð stendur til að færa almenningsbókasöfnin undir stjórn skólastjóra grunnskólanna og þannig vængstífa þau með öllu. Í Reykjavík munu bókasöfnin loka í sumar til að bregðast við hagræðingarkröfu borgarinnar og í öðrum sveitarfélögum er bókasöfnum gert að segja upp fólki eða hagræða í rekstri á annan hátt.

Fyrir utan að vera lögbundin þjónusta eru almenningsbókasöfn þátttökugátt, menningarhús og áfangastaður í dagsins önn. Hlutverk almenningsbókasafna á Íslandi hefur aldrei verið mikilvægara en nú á tímum einangrunar og einmanaleika. Bókasöfnin auka áhuga á lestri, ýta undir samfélagsþátttöku allra, stuðla að jafnrétti og veita öllum tækifæri til að nálgast upplýsingar og afþreyingu.

Almenningsbókasöfn bæta samfélagið með menningarstarfi, með því að veita upplýsingar og innblástur og með því að bjóða upp á rými og skjól til að skapa, taka þátt og fræðast. Menningarstarf og listir auðga samfélagið, auka samkeppnishæfni þess og hafa áhrif þegar fólk velur sér búsetu.

Almenningsbókasöfnin í dag standa fyrir fjölbreyttum viðburðum um allt land fyrir fólk á öllum aldri og bjóða upp á allt frá bókum til saumavéla, frá plokktöngum til vínylskera og frá hljómborðum til kökuforma. Notendur bókasafnanna geta nýtt sér hljóðupptökuver, lærdómsaðstöðu og sótt tónleika, námskeið og margt fleira. Í minni sveitarfélögum eru almenningsbókasöfnin jafnvel eina menningarmiðstöðin þar sem öll eru alltaf velkomin án þess að þurfa að greiða fyrir.

Til að almenningsbókasöfnin geti gengt þessu mikilvæga samfélagslega hlutverki þarf að hlúa að þeim. Víða þarf að draga seglin saman og hagræða en það má ekki verða til þess að skerða tækifæri fólks eða lífsgæði þeirra; hlúa þarf að samfélaginu og muna hver raunveruleg verðmæti þess eru.

Höfundur er deildarstjóri hjá Borgarbókasafni Reykjavíkur.




Skoðun

Sjá meira


×