Innlent

Fjár­hags­legt högg fyrir björgunarfélagið að missa flug­elda­sýninguna

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Vatnajökulsþjóðgarður hafnaði umsókn björgunarfélagsins um að halda árlegu flugeldasýninguna við Jökulsárlón.
Vatnajökulsþjóðgarður hafnaði umsókn björgunarfélagsins um að halda árlegu flugeldasýninguna við Jökulsárlón. Björgunarfélag Hornafjarðar

Hin árlega flugeldasýning á Jökulsárlóni verður ekki haldin í ár. Sýningin í fyrra var líklega sú síðasta sem haldin hefur verið við lónið. Um er að ræða fjárhagslegt högg fyrir Björgunarfélag Hornafjarðar, sem séð hefur um sýninguna. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Björgunarfélagi Hornafjarðar, þar sem kemur fram að umsókn um leyfi til að halda flugeldasýningu á Jökulsárlóni í ágúst hafi verið hafnað. 

Flugeldasýning á Jökulsárlóni hófst í kring um aldamótin 2000 þegar staðarhaldari vildi gera vel við starfsfólk sitt í lok sumars. Fljótlega fór fjöldi fólks að sækja þessa sýningu og byrjaði aðkoma Björgunarfélagsins fljótlega í formi miðasölu og gæslu á svæðinu,“ segir í tilkynningunni.

Smám saman hafi Björgunarfélagið tekið við sýningunni alfarið en þó með dyggum stuðningi staðarhaldara. Nú hafi hún verið haldin sleitulaust í 22 ár ef frá er talið 1 ár í miðjum Covid-19 faraldri.

„Þetta er ákveðið högg fyrir Björgunarfélagið fjárhagslega þar sem þetta er ein af okkar stóru fjáröflunum yfir árið og má búast við að við verðum af þó nokkrum tekjum á sama tíma og við stöndum í tveimur stórum og fjárfrekum verkefnum þar sem hver króna skiptir máli. Bygging nýs Björgunarsveitarhúss yfir starfsemi okkar og Slysavarnareildarinnar Framtíðarinnar og einnig kaup og breyting á nýrri bifreið sem mun sinna leitar og björgunarstörfum á starfsvæði okkar sem er að stóru leyti innan Vatnajökulsþjóðgarðs,“ segir í tilkynningunni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×