Skoðun

Stöðvum störu­keppnina

Sigmar Guðmundsson skrifar

Það er verulega áhugavert að fylgjast með ríkisstjórnarflokkunum reyna af veikum mætti að halda þessu stjórnarsamstarfi gangandi eftir forsetakosningarnar. Það ríkir fullkomin óvissa um framgang stórra mála á Alþingi vegna þess að flokkarnir koma sér ekki saman um hvað skuli klára. Það sem er þó merkilegast af öllu er að Vinstri hreyfingin grænt framboð virðist vera búin að fatta að hreyfingin er til vinstri.

Formaður VG og þingmenn flokksins taka nú skýra afstöðu gegn Sjálfstæðisflokknum í hverju málinu á fætur öðru. Formaður vinstri flokksins vill fara „vel til vinstri“ og augljóst er að nú á að taka sér stöðu gegn frumvarpi dómsmálaráðherra um breytingar á lögreglulögum.

Það segir sig sjálft að stjórnarsamstarf sem gengur út á gagnkvæmt neitunarvald flokkanna er ekki sjálfbært fyrir þjóðina. Það á ekki að vera sjálfgefið að stjórnarflokkarnir stöðvi mál hvers annars, óháð því hvort þingmeirihluti sé fyrir þeim eða ekki.

Á þetta höfum við í Viðreisn oft bent. Það er skýr þingmeirihluti fyrir því að rjúfa kyrrstöðuna í orkumálum og neitunarvald eins stjórnarflokkanna á ekki að koma í veg fyrir það. Það er að líkindum þingmeirihluti fyrir því að fjölga hér lögreglumönnum, efla löggæsluna og grípa til aðgerða gegn skipulagðri brotastarfsemi og hryðjuverkaógn, þótt einn stjórnarflokkanna sé mögulega á móti því. Viðreisn vill leggja sitt af mörkum til að ná því máli í gegn, bæði til að efla löggæslu í landinu og þar með almannaöryggi, og ekki síður til að tryggja eftirlit með þeim valdheimildum sem beitt er.

Rétt eins og í orkumálunum þá er Viðreisn til í samtal við aðra flokka á þingi, óháð víglínum stjórnar og stjórnarandstöðu, um þau mál sem brýnt er að samþykkja áður þingi verður slitið.

Sú pattstaða sem uppi er vegna ósættis innan stjórnarliðsins bitnar á hagsmunum almennings. Störukeppninni þarf að ljúka. Látum reyna á vilja þingsins, óháð því hvað einstaka stjórnarflokki kann að finnast.

Höfundur er þingmaður Viðreisnar.




Skoðun

Sjá meira


×