Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá HR. Umsóknarfrestur um grunnnám rann út í flestum háskólum landsins í gær.
Fram kemur að umsóknarfrestur um meistaranám í HR hafi runnið út 30. apríl en opið sé fyrir umsóknir um nám í Háskólagrunni til 15. júní. Því séu líkur á að heildartala umsókna hækki enn.
Fjöldi umsókna í grunnnám, meistaranám og doktorsnám séu á pari við síðasta ár, en þá hafi til dæmis umsóknum í grunnnám fjölgað mikið. Þá kemur fram að umsóknum um skiptinám og nám í Háskólagrunni fjölgi í ár. Það séu ívið fleiri karlar á meðal umsækjenda eða um 53 prósent.
Flestar umsóknir bárust um nám við viðskipta- og hagfræðideild og fjölgar umsóknum þar á milli ára um tæp fjögur prósent. Næstflestar umsóknir bárust um nám við verkfræðideild þar sem umsóknum fjölgar um tæp sextán prósent á milli ára. Þá fjölgaði umsóknum um nám við iðn- og tæknifræðideild um rúm tíu prósent.
„Það er mjög gleðilegt fyrir okkur í HR að sjá umsóknum fjölga eftir krefjandi vetur og ekki síst í ljósi þess að við erum nú eini háskólinn á Íslandi sem er fjármagnaður að hluta með skólagjöldum. Ég lít svo á að þetta sé einn besti vitnisburðurinn um það góða starf sem fer hér fram þar sem við leggjum allt okkar í að veita nemendum framúrskarandi menntun ásamt góðri og persónulegri þjónustu við bestu mögulegu aðstæður, þar sem allt er undir einu þaki,“ er haft eftir Ragnhildi Helgadóttur, rektor Háskólans í Reykjavík.