Innlent

Kjartan Bjarni skipaður landsréttardómari

Árni Sæberg skrifar
Kjartan Bjarni Björgvinsson verður skipaður landsréttardómari.
Kjartan Bjarni Björgvinsson verður skipaður landsréttardómari. Vísir/Vilhelm

Dómsmálaráðherra hefur ákveðið að leggja til við forseta Íslands að Kjartan Bjarni Björgvinsson verði skipaður dómari við Landsrétt frá 1. september 2024.

Í tilkynningu þess efnis segir að Kjartan Bjarni Björgvinsson hafi lokið embættisprófi í lögfræði árið 2002 og meistaraprófi í lögum frá London School of Economics and Political Science 2006. Að loknu embættisprófi hafi hann starfað sem lögfræðingur hjá umboðsmanni Alþingis og síðan sem aðstoðarmaður umboðsmanns 2006-2009. Á árunum 2009-2015 hafi hann verið aðstoðarmaður dómara við EFTA-dómstólinn.

Héraðsdómari frá 2015

Vorið 2015 hafi hann verið skipaður héraðsdómari og gegnt því embætti í kjölfarið með nokkrum hléum. Þannig hafi hann á árunum 2016 til 2017 verið formaður rannsóknarnefndar Alþingis sem tók til skoðunar einkavæðingu Búnaðarbanka Íslands. Þá hafi hann verið settur umboðsmaður Alþingis um sex mánaða skeið 2020 til 2021. 

Af öðrum störfum megi nefna að hann hafi verið varaforseti Félagsdóms á árunum 2019-2022 og varaformaður úrskurðarnefndar um upplýsingamál frá 2017. Einnig hafi hann átt sæti í stjórn Dómarafélags Íslands 2017 til 2023, þar af síðustu fjögur árin sem formaður félagsins.

Hefur verið í Landsrétti í tæpt ár

Hann hafi sinnt stundakennslu við lagadeild Háskóla Íslands frá árinu 2003 og við Háskólann á Bifröst 2005 til 2009, auk þess sem hann hafi verið sérfræðingur og síðan dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík 2015 til 2018. Hann hafi samið kennslurit á sviði stjórnsýsluréttar ásamt tveimur öðrum og ritað fjölda fræðigreina um lögfræðileg efni. Hann hafi verið settur dómari við Landsrétt frá október 2023.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×