Skoðun

Nauðungarstjórnun í nánum sam­böndum

Ásgeir Þór Ásgeirsson skrifar

Nauðungarstjórnun er orð sem líklega fæstir þekkja, né vita hvað merkir. Að vita merkingu þess er hins vegar nauðsynlegt. Það þarf að auka vitund almennings um þetta mjög mikilvæga málefni. Nauðungarstjórnun er þegar einstaklingur, oftast maki eða fyrrverandi maki, tekur sér stjórn á lífi annarrar manneskju, t.d. með því að stýra aðgengi viðkomandi að samskiptum við vini og fjölskyldu, fjármálum, samfélagsmiðlum eða öðru sem eðlilegt er að frjáls manneskja hafi forræði yfir sjálf. Þau sem búa við nauðungarstjórnun eru þannig eins konar gíslar í sínu eigin lífi. Afleiðingarnar geta verið mjög alvarlegar, það þekkjum við í lögreglunni eftir að hafa fengið slík mál til rannsóknar.

Fræðsla um nauðungarstjórnun er því mjög mikilvæg og hana hefur allt starfsfólk Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu undirgengist. Gert var sérstakt myndband um nauðungarstjórnun sem nú er hægt að nálgast bæði á heimasíðu lögreglunnar og á samfélagsmiðlum LRH. Því verður enn fremur dreift víðar en við hvetjum fólk eindregið til að gefa sér tíma og horfa á myndbandið, enda á það erindi til allra.

Efni myndbandsins er þýtt og staðfært með góðfúslegu leyfi Jane Monckton-Smith, prófessors við háskólann í Gloucestershire. Hún er fyrrverandi lögreglumaður og afbrotafræðingur sem rannsakaði upphaflega 372 kvennamorð í Englandi og Wales, sem áttu sér stað á árunum 2012–2015, en þau tengdust ofbeldi í nánum samböndum. Jane vinnur mikið með lögreglu við rannsókn mála, við greiningu á grunsamlegum dauðsföllum og við þjálfun lögreglumanna, dómara, ákærenda og fleira starfsfólks réttarkerfisins. Þá hefur hún unnið mikið með fjölskyldum kvenna sem hafa verið myrtar af eiginmanni, sambýlismanni, kærasta eða fyrrverandi maka.

Í myndbandinu um nauðungarstjórnun, sem er um 17 mínútur að lengd, er fjallað um átta stig nauðungarstjórnunar í manndrápsmálum. Þar er einnig vakin athygli á þremur mikilvægum spurningum sem hjálpa fólki við að þekkja nauðungarstjórnun.

Hafir þú grun um að manneskja búi við nauðungarstjórnun er hægt að hafa samband við lögreglu í síma 800 5005 (nafnlaus ábendingarsími) eða með tölvupósti á netfangið abending@lrh.is Teljir þú manneskju vera í bráðri hættu skaltu ávallt hringja í 112.

Höfundur er aðstoðarlögreglustjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×