Tónlist

Lykil­maður ís­lensku rappsenunnar stígur inn í sviðs­ljósið

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Arnar Ingi, Young Nazareth, er að gefa út þrjár EP plötur undir eigin nafni.
Arnar Ingi, Young Nazareth, er að gefa út þrjár EP plötur undir eigin nafni. Hrafnhildur Anna

Pródúserinn og plötusnúðurinn Arnar Ingi, betur þekktur sem Young Nazareth, hefur komið víða að í tónlistinni og er búsettur í Berlín um þessar mundir. Hann hefur unnið með mörgum af þekktustu tónlistarmönnum landsins og er nú að fara að senda frá sér danslaga EP plötu undir eigin nafni.

Arnar Ingi býr í Berlín ásamt Sólveigu kærustu sinni og segir hann að það áhugavert og skemmtilegt að prófa að búa erlendis. 

Hér má heyra lagið Danois af væntanlegri plötu:

Klippa: Young Nazareth - Danois

Unnið með nánast öllu vinsælasta tónlistarfólki landsins

Aðspurður hvort klúbbatónlistin sem einkennir Berlín hafi haft áhrif á tónlist hans svarar Arnar Ingi:

„Já og nei. Áhrifin voru meiri til að byrja með, það er auðvitað öðruvísi næturlíf og klúbbar hér úti og það var auðvelt að sækja innblástur þangað í byrjun. Stefnan er aðeins meira dark hér og ég áttaði mig svo á því að mig langaði að fara í aðeins aðra átt.“ 

Arnar Ingi fyrst fram á sjónarsviðið árið 2015 fyrir vinnu sína með hljómsveitinni Sturla Atlas. Síðan þá hefur hann unnið með nánast öllu vinsælasta tónlistarfólki landsins, þar ber helst að nefna Birni, Aron Can, Loga Pedro, Flóna, Unnstein Manúel, GDRN, Herra Hnetusmjör, Emmsjé Gauta, Unu Schram og CLUBDUB.

EP platan ber heitið 200/101 vol.1 og er þriggja laga plata sem setur í samhengi bakgrunn hans sem lykilmanns í íslensku hiphop senunni við nýjan ráspól. Unnið er með hljóðbrot úr vinsælum íslenskum hiphop stöklum í hverju lagi. Er verkið fyrsta innsetning í þríleik af útgáfu.

Arnar Ingi nýtur þess að búa í Berlín.Aðsend

Eyddi unglingsárunum í Logic

Kveikjan að plötunni kom í Covid.

„Þá finn ég sjálfan mig í smá fyndinni stöðu. Flestir sem ég var að vinna með voru annað hvort að gera upp íbúð, eignast börn eða bæði og ég fann að ég þurfti að fara að gera eitthvað, bæði til að láta mér ekki leiðast og til þess að halda geðheilsunni.

Þannig að ég byrja bara að gera meiri músík einn. Þegar að ég byrjaði upphaflega að gera músík var ég við fermingaraldur og ég var þá aðallega að gera danstónlist.

Ég keypti mér Macbook tölvu og tónlistarforritið Logic fyrir fermingarpeninginn minn og ég var alltaf inni í herbergi að reyna að gera house tónlist. Ég get til dæmis ekki svarað því hvaða sjónvarpsþættir voru vinsælir á þessum árum því ég var bókstaflega alltaf að prófa mig áfram í að gera tónlist.

Ég var með smá unglingaveiki á þessum tíma að vera mikið á móti svona meginstraums (e. mainstream) tónlist og meikaði til dæmis ekki Pitbull. Kannski var það kveikjan að þessu, að ég vildi hlusta á eitthvað annað.“

Tónlistaráhuginn kviknaði snemma hjá Arnari Inga. Hrafnhildur Anna

Notar hljóðbrot úr íslensku rappi

Í Covid fær Arnar Ingi svo þá hugmynd að fara aftur í að gera dansmúsík.

„Ég veit ekki alveg hvernig það atvikaðist en mig langaði að gera einhvers konar dansmúsík sem byggir á íslenskri rappmúsík, að notast annað hvort við sömpl eða stef úr íslensku rappi. Út frá því kemur til dæmis remix af laginu Slæmir ávanar með Birni, segir Arnar Ingi en remixið hefur notið mikilla vinsælda síðustu misseri.

Út frá því held ég áfram að prófa að gera fleiri lög og ákveð bara að henda þessu út í staðinn fyrir að láta þetta bara vera inni í skúffu. Ég ætlaði fyrst að gefa út plötu en svo fannst mér skemmtilegra að gefa út nokkur lög í einu.“

Dans- og housetónlistin hefur verið gríðarlega vinsæl á dansgólfum víða um heiminn en ekki náð almennilegri fótfestu hérlendis.

„Maður reynir að troða nokkrum lögum inn á klúbbunum heima en það virkar ekki jafn vel að spila músík sem fólk þekkir ekki. Í Berlín er þetta þveröfugt, þar keppast plötusnúðarnir við að spila lög sem enginn annar þekkir.“

Aðspurður hvort lykillinn sé þá að bæta við brotum úr þekktum íslenskum rapplögum segir Arnar Ingi:

„Já, kannski fyrir Íslendinginn á dansgólfinu en þrátt fyrir það er danstónlistarsenan heima alltaf að stækka og fullt af spennandi hlutum að gerast.“

Rými til að pæla minna í áliti annarra

Hann nýtur sín vel erlendis og segir að það hafi sömuleiðis haft góð áhrif á tónlistarsköpun hans.

„Ég held að það hafi hjálpað mér dálítið við að gera þessa músík að vera úti smá aftengdur og ekki stöðugt að pæla í því hvað þessum eða hinum gæti fundist um þetta. 

Maður er bara hér að pæla í sjálfum sér og fólkinu hér. Kannski gefur maður sér þá aðeins meira rými til að pæla minna í öðrum. Það er líka alveg ótrúlega skemmtileg sena í gangi hérna og annars staðar í Evrópu.“

Arnar sér sjálfur um hönnun og umbrot á plötunni, en hann nam grafíska hönnun við Listaháskóla Íslands.

Platan er gefin út af plötuútgáfufyrirtæki Priksins, Sticky. Sem einnig sér um dreifingu vinyl útgáfu verksins og fer fyrir viðburðarhaldi tengt plötunni.

Í fréttatilkynningu frá Prikinu segir:

„Prikið hefur gengið gegnum endurnýjun lífdaga undanfarið og styrkt samhliða því plötuútgáfu sína. Staðurinn gaf út plötuna ÞETTA ER ÍZLEIFUR með rapparanum Ízleifi í lok febrúar þessa árs og vakti hún mikla lukku.“

Hér má nálgast nánari upplýsingar um vínylplötuna. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.