Fótbolti

Virkja 300 milljón króna klá­súlu í samningi Ísaks og kaupa hann

Aron Guðmundsson skrifar
Ísak Bergmann í leik með Fortuna Dusseldorf
Ísak Bergmann í leik með Fortuna Dusseldorf Fortuna Düsseldorf

Þýska B-deildar liðið Fortuna Düsseldorf hefur virkjað klásúlu í samningi íslenska landsliðsmannsins Ísaks Bergmanns Jóhannessonar og mun hann ganga til liðs við félagið frá FC Kaupmannahöfn. 

Það er félagsskiptasérfræðingurinn Fabrizio Romano sem að greinir frá tíðindunum í færslu á X-inu. 

Um 2 milljóna evra klásúlu, því sem nemur rétt tæpum þrjú hundruð milljónum íslenskra króna, er að ræða í lánssamningi Ísaks milli Fortuna og Kaupmannahafnarfélagsin. Klásúlu sem að Fortuna Düsseldorf hefur nú virkjað til þess að gera hann að sínum leikmanni. 

Ísak var á láni hjá Fortuna Düsseldorf á síðasta tímabili og hefur frammistaða hans greinilega heillað forráðamenn þýska félagsins. 

Romano segir að nýr samningur Ísaks við Fortuna Düsseldorf muni nú gilda til ársins 2029.

Ísak, sem á að baki 27 A-landsleiki fyrir Íslands hönd, kom við sögu í 36 leikjum fyrir Fortuna Düsseldorf í öllum keppnum á síðasta tímabili. Í þeim leikjum skoraði hann sjö mörk og gaf níu stoðsendingar en liðið var ekki langt frá því að tryggja sér sæti í þýsku úrvalsdeildinni. 

Í viðtali við vefsíðuna Fótbolti.net á dögunum sagðist Ísak vonast til þess að geta verið áfram á mála hjá þýska félaginu. 

„Mig langar að vera áfram í Fortuna, mér líður ótrúlega vel í Þýskalandi og stóð mig vel. En þetta er ekki í mínum höndum," sagði Ísak við blaðamanninn Elvar Geir Magnússon hjá Fótbolti.net.

Ósk hans er nú að rætast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×