Körfubolti

Annað ljótt brot á Caitlin Clark orðið að fjöl­miðla­fári

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Angel Reese lét Caitlin Clark finna vel fyrir sér og brotið hefur fengið mikla umfjöllun í bandarískum fjölmiðlum.
Angel Reese lét Caitlin Clark finna vel fyrir sér og brotið hefur fengið mikla umfjöllun í bandarískum fjölmiðlum. Getty/Emilee Chinn

Einvígi tveggja körfuboltakvenna á fyrsta ári í WNBA heldur áfram að búa til fyrirsagnir í bandarískum fjölmiðlum.

Caitlin Clark og Angel Reese mættust öðru sinni í WNBA deildinni í körfubolta í gær en þær spila með liðum Indiana Fever og Chicago Sky. Það vantar ekki umfjöllunina um leikinn hinum megin við Atlantshafið.

Clark og félagar í Indiana Fever fögnuðu sigri eins og síðast, nú 91-83, en mesta athygli hefur vakið gróft brot Reese á Clark sem og það að Reese kvartaði mikið yfir sérmeðferð frá dómurunum eftir leik.

Reese sló þá í höfuð Clark þegar hún var á leiðinni í sniðskot og fékk á sig fyrir það óíþróttamannslega villu.

„Ég stjórna ekki dómurunum. Þeir höfðu mikil áhrif á leikinn í kvöld. Ég er alltaf að reyna við boltann. Þið eigið samt eftir að sýna þetta tuttugu sinnum í kvöld,“ sagði Reese.

Það var líka rétt hjá henni. Myndband af brotinu hefur verið sýnt margoft á sjónvarpsstöðvunum, meira segja á CNN.

„Mér fannst við fara mörgum sinnum af krafti á körfuna en við fengum ekki marga dóma með okkur. Ég hef séð nokkur af þessum atvikum aftur og þeir voru að missa af dómum. Það er eins og sumir fá sérstaka meðferð frá dómurunum,“ sagði Reese og var án efa að vísa til Clark.

Clark talaði þó máli Reese eftir leik og sagði að hún hefði bara verið að reyna við boltann. „Þetta er bara hluti af körfuboltanum. Það er bara þannig. Hún var að reyna að verja skotið og svona gerist,“ sagði Clark.

Í fyrri leik liðanna var mikið gert úr því þegar Chennedy Carter braut illa á Clark þegar boltinn var ekki í leik sem og að Reese fagnaði því broti á hliðarlínunni.

Clark átti mjög flottan leik en hún skoraði 23 stig, gaf 9 stoðsendingar, tók 8 fráköst og varði 2 skot. Enginn nýliði hafði áður náð því í einum leik í WNBA. Reese var síðan með 11 stig, 13 fráköst og stoðsendingar.

Þessir tveir nýliðar í WNBA deildinni halda áfram að búa til fyrirsagnir og það góða við allt þetta er að þær mætast aftur á sunnudaginn kemur og sá leikur mun eflaust vekja gríðarlega athygli í Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×