Körfubolti

„Tíu sinnum betra en mig dreymdi um“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jayson Tatum fagnar titlinum með syni sínum Jayson Christopher Tatum Jr. en sonur hans gengur jafnan undir nafninu Deuce.
Jayson Tatum fagnar titlinum með syni sínum Jayson Christopher Tatum Jr. en sonur hans gengur jafnan undir nafninu Deuce. Getty/Elsa

Það var svo sannarlega þungu fargi létt af Jayson Tatum þegar honum tókst loksins að vinna NBA titilinn með Boston Celtics í nótt.

Tatum og Boston liðið var búið að vera lengi í fremstu röð í NBA en félagið hafði ekki unnið titilinn síðan árið 2008.

Pressan var mikil og ekki síst á Tatum sjálfum. Það mátti líka sjá þetta á dramatískum viðbrögðum hans í leikslok.

Aðeins fjórir leikmenn hafa skorað fleiri stig í sögu úrslitakeppninnar en Tatum eða þeir Jerry West, LeBron James, Dirk Nowitzki og Kevin Durant. Nú getur hann loksins kallað sig NBA meistara.

Tatum talaði um aðdragandann að þessum fyrsta langþráða titli sínum.

„Fólk hefur talað um það áður en af því að við höfum farið langt í úrslitakeppninni áður og ekki tekist að klára titilinn þá gerir það þessa stund svo miklu betri,“ sagði Tatum á blaðamannafundi eftir leikinn.

„Þú veist hvernig það er að tapa og þekkir þá slæmu tilfinningu að vera í hinum klefanum og heyra í hinu liðinu fagna titlinum. Það var hræðilegt að heyra í liði fagna titli á þínum heimavelli,“ sagði Tatum og vísaði þá þegar liðið tapaði á móti Golden State Warriors í úrslitaeinvíginu 2022.

„Nú er ég að komast upp í þennan hóp þar sem allir uppáhaldsleikmennirnir mínir eru. Allir sem teljast frábærir eða teljast til goðsagna hafa orðið meistarar. Allir þeir leikmanna sem ég leit upp til urðu meistarar og unnu margra titla. Nú get ég gengið inn í þau herbergi og deilt þeirri tilfinningu,“ sagði Tatum.

„Þetta er rosaleg tilfinning. Mig dreymdi um hvernig þetta yrði en þetta er tíu sinnum betra,“ sagði Tatum.

Hann fagnaði með syni sínum Deuce á gólfinu þegar titilinn var í höfn eins og sjá má hér fyrir neðan.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×