Innlent

Ís­lenskir ung­lingar undir pari í skapandi hugsun hins dag­lega lífs

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Íslensk ungmenni hafa komið illa út úr PISA-könnunum undanfarin ár.
Íslensk ungmenni hafa komið illa út úr PISA-könnunum undanfarin ár.

Hæfni 15 ára nemenda á Íslandi í skapandi hugsun var undir meðaltali OECD og var frammistaða drengja lakari en stúlkna. Þetta eru meðal niðurstaðna úr könnun PISA á skapandi hugsun sem birtar voru í dag. Íslenskir nemendur hafa þó góða trú á eigin getu.

Um er að ræða nýjan valkvæðan hluta PISA-könnunarinnar 2022 sem Ísland tók þátt í ásamt 63 öðrum þjóðum. Meðal annarra niðurstaðna könnunarinnar voru þær að annar hver fimmtán ára drengur byggi ekki yfir grunnfærni í lesskilningi.

Fram kemur á vefsíðu mennta- og barnamálaráðuneytisins að könnuninni sé fyrst og fremst ætlað að meta skapandi hugsun af því tagi sem allir einstaklingar búi yfir og noti í daglegu lífi. Ekki sé um að ræða mat á listrænum hæfileikum nemenda. Þetta er í fyrsta sinn sem könnun á skapandi hugsun er framkvæmd í PISA.

Nemendur unnu með sögu- og textahugmyndir, settu saman einföld myndræn verk og lögðu til lausnir við samfélagslegum og vísindalegum úrlausnarefnum. Verkefnin reyndu ýmist á frumleika í hugmyndum, hugmyndaauðgi eða færni nemenda í að meta og bæta hugmyndir. 

Dæmi um verkefni og nánari niðurstöður er að finna í skýrslu OECD um skapandi hugsun í PISA 2022.  

Undir meðallagi

Þátttaka í fyrirlögn verkefna um skapandi hugsun var valkvæð og tóku 64 ríki þátt, þar af 28 af 38 ríkjum OECD. Í heild var frammistaða íslenskra nemenda (30,5 stig) undir meðaltali OECD-ríkja (33 stig). Önnur Norðurlönd sem tóku þátt voru Danmörk og Finnland og frammistaða þar var betri en að jafnaði í ríkjum OECD.

Á Íslandi teljast 72% nemenda búa yfir grunnhæfni PISA í skapandi hugsun en að meðaltali í OECD-ríkjum var hlutfallið 78%. Hlutfall nemenda sem teljast hafa afburðahæfni var 21% á Íslandi en meðaltal OECD-ríkja var 27%.  

Íslenskir nemendur sýndu betri færni í verkefnum sem reyndu á frumlegar hugmyndir og verkefnum þar sem unnið var með sögu- eða textahugmyndir, miðað við önnur verkefni.   

Íslenskar stúlkur stóðu sig talsvert betur en drengir og þannig teljast 79% þeirra hafa grunnhæfni og 27% afburðahæfni, sem er nálægt en þó undir meðaltali stúlkna í OECD-ríkjum (82% og 31%). Munurinn er meiri meðal drengja þar sem 65% hafa grunnhæfni og tæplega 16% afburðahæfni en samsvarandi hlutföll í ríkjum OECD eru 75% og 23% að jafnaði.    

Nemendur hafa sterka trú á eigin getu

Svör íslenskra nemenda við spurningalistum PISA gefa til kynna að þeir hafi jákvæð viðhorf gagnvart sköpun og sköpunargáfu. Miðað við jafnaldra þeirra í ríkjum OECD sjá þeir að jafnaði fleiri tækifæri til sköpunar í ólíkum greinum og trúa því frekar að sköpunargáfu sé hægt að þjálfa og efla.

Íslenskir nemendur hafa einnig fremur sterka trú á eigin getu til að vera skapandi og til að leysa verkefni með skapandi hætti. Þá var meirihluti þeirra sammála því að þeir fái tækifæri (70%) og hvatningu (75%) til að vera skapandi í kennslutímum og slík upplifun var algengari hér en að jafnaði í OECD-ríkjum (63% og 64%). 

Aðgerðaráætlun vegna PISA 2022

Á vefsíðu mennta- og barnamálaráðuneytisins segir að ráðuneytið vinni að aðgerðaráætlun til að bregðast við niðurstöðum PISA 2022 í samstarfi við breiðan hóp hagsmunaaðila. 

„Farið verður yfir viðbótarniðurstöður PISA um skapandi hugsun sem nú liggja fyrir og aðgerðaráætlunin uppfærð m.t.t. þeirra. Aðgerðaáætlunin verður kynnt til samráðs á föstudag og aðgerðunum hrint í framkvæmd í innleiðingu 2. áfanga menntastefnu stjórnvalda til ársins 2030 sem kynntur verður í haust,“ segir í tilkynningunni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×