Innlent

Táningur sagður hafa stungið mann í and­lit og kvið

Jón Þór Stefánsson skrifar
Árásin átti sér stað á Austurvelli.
Árásin átti sér stað á Austurvelli. Vísir/Vilhelm

Unglingspiltur hefur verið ákærður fyrir tilraun til manndráps fyrir tilraun til manndráps fyrir að ráðast með hníf á mann við Austurvöll í júní í fyrra.

Piltinum, sem var sextán ára þegar atvik málsins áttu sér stað, er gefið að sök að veitast að manninum með hníf, skorið hann í andlit, stungið í kvið og með því reyna að svipta hann lífi.

Fyrir vikið hlaut maðurinn skurðsár í andliti annars vegar og hins vegar mikla áverka á kviði, nánar tiltekið þriggja og hálfs sentímetra rof á kviðvegg og djúpan stunguáverka þannig að garnahengi og hluti af garnalykkju vall út úr kviðarholinu. Fjarlægja þurfti hluta af garnahenginu í bráðaaðgerð.

Maðurinn sem varð fyrir árásinni er erlendur ríkisborgari á þrítugsaldri. Hann krefst 2,5 milljóna króna í miskabætur frá piltinum.

Það er héraðssaksóknari sem höfðar málið sem verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur. Þess er krafist að pilturinn verði dæmdur til refsingar og greiðslu sakarkostnaðar.

Greint var frá árásinni í fyrra. Þá kom fram að sá sem varð fyrir árásinni hafi hlaupið inn í mathöllina í Pósthússtræti þar sem hann hafi fengið fyrstu hjálp áður en lögregla og sjúkralið hafi komið á staðinn. Hann var sagður blóðugur þegar hann kom inn á staðinn, en með meðvitund allan tíman og sjálfur gengið í sjúkrabílinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×