Innlent

Fjöldi Reyk­víkinga með kynhlutlausa skráningu tvöföldaðist milli ára

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Áttatíu íbúar í Reykjavík voru með kynhlutlausa skráningu í þjóðskrá árið 2023. 
Áttatíu íbúar í Reykjavík voru með kynhlutlausa skráningu í þjóðskrá árið 2023.  Vísir/Vilhelm

Fjöldi Reykvíkinga með hlutlausa kynskráningu tvöfaldaðist milli áranna 2022 og 2023. Þá hækkaði hlutfall innflytjenda af íbúafjölda í Reykjavík á tímabilinu 1996 til 2023 úr 2,6 prósent í 25 prósent.

Þetta kemur fram í hinum svokölluðu kynlegu tölum Reykjavíkurborgar, sem gefnar eru út ár hvert. Þær fela í sér tölulegar upplýsingar um kyn og margbreytileika í Reykjavík og eru hluti af markvissu jafnréttisstarfi borgarinnar í takt við mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar.

Í kynlegu tölunum kemur fram að fjöldi einstaklinga með hlutlausa kynskráningu hafi verið fjörutíu á fyrsta ársfjórðungi 2022 en áttatíu á fyrsta ársfjórðungi síðasta árs. Í byrjun árs 2021 var opnað fyrir kynhlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá. 

Þá kemur fram að hæst hlutfall barna og ungmenna, 0 til 19 ára, býr í Grafarholti og Úlfarsárdal, en þar er tæplega þriðjungur íbúa á því aldursbili. Hæst hlutfall fólks á aldrinum 20-39 ára býr í Miðborginni, þar sem 46 prósent íbúa eru á því aldursbili. Í Háaleiti og Bústaðahverfi er hæst hlutfall fólks 60 ára og eldri, en 23 prósent íbúa þar eru á því aldursbili.

Fleiri tölur um mál sem varða jafnrétti, lýðheilsu, atvinnuþátttöku, innflytjendur og fleira má nálgast á vef Reykjavíkurborgar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×