Erlent

Ungur breskur maður týndur á Tenerife

Lovísa Arnardóttir skrifar
Slater var í fríi með vinum sínum og fór heim með fólki sem hann kynntist á meðan hann skemmti sér. Hann ætlaði svo að ganga heim en ekkert hefur spurst til hans síðan snemma á mánudag. 
Slater var í fríi með vinum sínum og fór heim með fólki sem hann kynntist á meðan hann skemmti sér. Hann ætlaði svo að ganga heim en ekkert hefur spurst til hans síðan snemma á mánudag. 

Ungur breskur maður hefur verið týndur á Tenerife frá því í fyrradag. Maðurinn, Jay Slater, er 19 ára gamall og var í sínu fyrsta fríi án foreldra sinna þegar hann týndist. Móðir mannsins, Debbie Duncan, segist ekkert hafa heyrt frá honum í 48 klukkutíma. Maðurinn var með vinum sínum á Tenerife til að fara á tónlistarhátíðina NRG.

Leitarteymi, ættingjar og vinir Slater hafa leitað að honum í fjalllendi við Rural de Teno national þjóðgarðinn en síðasta þekkta staðsetning hans var á fjallvegi þar.

„Þetta er áfall og mér líður ekki eins og þetta sé raunverulegt. Þetta er skelfilegt, þetta er hryllilegt. Hann er æðisleg manneskja sem öllum langaði að vera með. Hann lítur vel út, hann er vinsæll strákur,“ sagði móðir hans, Debbie, við AP fréttastofu.

Hún sagði einnig við þau að lögreglan sem leiðir leitina hafi verið mjög góð og að lögreglan hafi unnið sleitulaust við leit og notað til þess bæði hunda og dróna.

Fram kemur í umfjöllun breska miðilsins BBC að Jay hafi á sunnudag birt myndir af sér á samfélagsmiðlum. Þar var hann klæddur í gráa skyrtu með grænum bútum á öxlunum og að skemmta sér.

Haft er eftir vinkonu hans í frétt BBC að Jay hafi farið heim með fólki sem hann hafi hitt á meðan hann var úti að skemmta sér norðvestur af eyjunni. Hann hafi hringt í hana snemma á mánudagsmorgun til að segja henni að hann væri að reyna að labba heim til þeirra á suðurhluta eyjunnar og að hann hafi misst af strætisvagninum heim. Gangan heim væri um tíu klukkutíma, hann væri ekki með vatn og hann ætti aðeins um eitt prósent eftir af símanum sínum. Á meðan hún var að tala við hann slökknaði á símanum og enginn hefur heyrt frá honum síðan.

Breskur blaðamaðurinn og ritstjóri Canarian Weekly sagði við BBC að svæðið þar sem Slater týndist væri mjög gróft. Fólk væri þangað til að ganga og klífa fjöll og það væri líkt eyðimörk. Þar væri einnig að finna djúp gil og gljúfur og að fólk vildi líklega ekki vera þar án nauðsynlegs búnaðar.

Þegar hann sást síðast var hann klæddur í stuttbuxur, stuttermabol og íþróttaskó.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×