Í tilkynningu frá Reitum kemur fram að öll afþreying verði opin ásamt líkamsrækt og sjúkraþjálfun. Þær verslanir sem urðu verst úti í brunanum þurfi þó lengri tíma áður en hægt er að opna þær.
„Kringlan og verslunareigendur hafa fundið fyrir gríðarlegum samhug. Þegar svona kemur upp verður ljóst hversu mikilvæg stoð Kringlan er í samfélaginu. Grettistaki hefur verið lyft og hafa hundruð manna aðstoðað og unnið ómetanlegt starf undanfarna daga,“ segir í tilkynningu.
Þorgeir Ásvaldsson ræddi við Svövu Johanssen eiganda NTC í Reykjavík síðdegis í dag. Svava sagðist enn að jafna sig en verslanir hennar urðu fyrir miklu tjóni. Þetta væri mikið tjón og tíu verslanir hafi orðið fyrir altjóni.
Starfsfólk væri búið að vinna hörðum höndum síðustu daga við að rýma verslanir og næst á dagskrá sé niðurrif vegna reyks og vatnsskemmda. Svava átti von á því að verslanirnar yrðu byggðar aftur á mettíma en á ekki von á því að Sautján og Kúltúr menn opni næstu tvo til þrjá mánuðina.
„Allur fatnaðurinn er búinn að vera innan um reyk í marga daga,“ segir Svava og að auk þess hafi verið að bræða tjörupappa og af því komi sérstök lykt. Á þakið hafi verið sprautað vatni og froðu og parket, gólf og veggir séu ónýtir.
Hvað varðar fötin sem voru í verslununum segir Svava að það sé verið að meta hvað sé heilt og hvað sé ónýtt. Því versta verði fleygt og fargað en það sé verið að meta annað. Búið er að fara með vörurnar á annan stað þar sem starfsfólk mun fara í gegnum vörurnar.
Svava segist í samtali við tryggingafélagið sitt og það eigi enn eftir að koma í ljós hversu mikið er tryggt.
„Fyrirtæki eru mjög misjafnlega tryggð,“ segir Svava og að þau séu nú búin að yfirfara allar sína tryggingar. Hægt er að hlusta á viðtalið hér að ofan.