Innlent

Bið­tími barna eftir heyrnarþjónustu styst lítil­lega

Lovísa Arnardóttir skrifar
Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, skoðar nú að sameina HTÍ við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. 
Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, skoðar nú að sameina HTÍ við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.  Vísir/Vilhelm

Biðtími barna eftir heyrnarþjónustu hjá Heyrnar- og talmeinastöð Íslands hefur styst lítillega frá því í nóvember á síðasta ári. Þrettán samtök skoruðu þá á ráðherra að tryggja rekstrargrundvöll stofnunarinnar. Fram kemur í nýju svari ráðherra að enn séu um tvö þúsund einstaklingar á bið eftir þjónustu í allt að tvö ár, og að börn bíði nú í þrjá mánuði í stað fimm. 

Lengst er biðin hjá fullorðnum eftir mælingu og heyrnartæki. Minnst er biðin vegna aðstoðar vegna heyrnartækja. Heilbrigðisráðuneytið skoðar að sameina stofnunina við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og að breyta lögum um hana.

Frá þessu er greint í svari frá heilbrigðisráðherra við fyrirspurn þingmanns Sjálfstæðisflokksins, Birgis Þórarinssonar.

Þar kemur einnig fram að alls bíða 134 börn þriggja ára og yngri eftir heyrnarþjónustu og 75 börn sem eru eldri en fjögurra ára. Alls eru það 209 börn sem er um hundrað færri börnum en biðu í nóvember. Þá bíða 380 fullorðnir eftir því að komast í fyrstu komu og 1.155 fullorðnir eftir mælingu og heyrnartæki. Þá eru 177 sem bíða eftir aðstoð vegna heyrnartækja og 107 vegna þess að þau vilja aðstoð við val á tæki.

Heyrnar- og talmeinastöðinni ber að sinna heyrnamælingum, greiningum og meðferð á heyrna- og talmeinum. Þá sinnir HTÍ einnig meðferð og íhlutun vegna barna sem fæðst með skarð í góm og/eða vör.

Í fyrirspurn Birgis er spurt hvers konar aðgerðir ráðherra ætli að grípa til svo hægt verði að vinna á löngum biðlistum. Fram kemur í svari ráðherra að í nóvember á síðasta ári hafi verið farið í átak til að stytta biðtíma yngstu barnanna og hann hafi styst úr fimm mánuðum í þrjá. Á sama tíma hafi biðtími eftir vali á tækjum farið úr fimm mánuðum í um fjóra mánuði.

Þá kemur fram að ráðuneytið hafi skoðað ýmsar möguleika og beitt sér fyrir auknu framboði menntunar í heyrnartengdum fræðum.

Fram kemur í svari heilbrigðisráðherra að innan ráðuneytisins sé það til skoðunar hvort tilefni sé til að breyta lögum um Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands þannig að hlutverk hennar sé afmarkað með skýrari hætti og möguleikar á öflun sértekna auknir. Rekstrargjöld stofnunarinnar í fyrra voru 586 milljónir. Stofnunin fékk 208 milljónir í fjárlögum og 315 milljónir fjárheimild. Þá kemur fram að sértekjur stofnunarinnar voru 315 milljónir.

„Fyrst og fremst er um að ræða sölutekjur. Að frádregnum vörukaupum og beinum kostnaði skila aðrar tekjur um 1/ 3– 1/ 2 af þeirri fjárhæð í hreinar tekjur til stofnunarinnar. Sala heyrnartækja og annarra hjálpartækja vegna heyrnarskerðingar myndar meginhluta sértekna stofnunarinnar.“

Uppsafnaður halli

Í svari ráðherra segir að á árunum 2017 til 2021 hafi uppsafnaður halli af rekstri stofnunarinnar verið um 150 milljónir króna. Í fjáraukalögum árin 2021 og 2023 hafi svo verið millifærð alls 213 milljónir króna einskiptisframlög til stofnunarinnar sem hafi leyst vanda hennar að hluta. Framlög á fjáraukalögum ársins 2021 námu 113 milljónum króna og 100 milljónum króna árið 2023. Fjórtán milljóna aðhaldskrafa er á stofnuninni fyrir árin 2020 til 2024.

„Möguleikar til frekari hagræðingar og skýrari afmörkunar starfseminnar eru jafnframt til skoðunar. Ráðuneytið hefur haft til skoðunar ýmsar hugmyndir um breytingar á rekstri stofnunarinnar undanfarin tvö ár, þ.m.t. sameiningu við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins,“ segir í svari ráðuneytisins og að Framkvæmdasýslan – Ríkiseignir (FSRE) hafi leitað að nýju húsnæði fyrir stofnunina frá árinu 2019.

„Skoðað hefur verið að koma stofnuninni fyrir innan einnar af þremur heilsugæslum sem stefnt er að því að leita að nýju húsnæði fyrir á höfuðborgarsvæðinu og að í millitíðinni verði stofnunin tímabundið hýst í húsnæði í eignasafni ríkisins. Það sama má segja um starfsstöð stofnunarinnar á Akureyri sem hefur verið í húsnæði með heilsugæslustöð HSN. Eftir flutning heilsugæsluþjónustu HSN í nýtt húsnæði er unnið að því að leysa húsnæðismál heyrnarþjónustu þar, m.a. með það að sjónarmiði að hún rúmist með heilsugæsluþjónustu til framtíðar,“ segir enn fremur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×