Skoðun

Ó­sýni­legi maðurinn á Austur­velli

Kristinn Jón Ólafsson skrifar

Á 80 ára lýðveldisafmælinu felldi ég tár innra með mér á Austurvelli. Tilefnið var þó ekki girðingin sem að valdið telur að þurfi að reisa til að verja sig frá okkur. Gjáin er nefnilega víðar sem við þurfum öll að taka þátt í að brúa.

Ég var á flakki með börnin framhjá Jóni afmælisbarni eftir viðkomu á Klambratúni, Hljómskálagarðinum og Ráðhúsinu. Klukkan var að slá 16 og við nýbúin að sleikja á okkur munnvikin eftir að hafa gætt okkur á sykursætum lýðveldis möffins.

Sá sem enginn vill sjá

Útundan mér sé ég mann á róli. Stundarkorni síðar fellur sami maður kylliflatur á flötina beint fyrir framan mig og börnin. Ég krýp niður á hnén til þess að athuga með lífsmörk. Ungmennin á vellinum bregðast skjótt og faglega við; unglingurinn minn víkur til hliðar í ró með yngra barnið og tveir ungir herramenn hringdu í Neyðarlínuna.

Hér lá hönd mín á hjarta ókunnugs manns þar sem ég fann á tímapunkti hvorki púls hans né andardrátt eftir yfirliðið. Ég kallaði skelkaður; ,,Er einhver læknir á staðnum?” Viðbrögðin sem ég uppskar voru takmörkuð, þrátt fyrir fjölda fólks sem voru samankomin á Austurvelli á þjóðhátíðardegi okkar Íslendinga. Tveir karlmenn ganga upp að okkur í grasinu; annar spyr mig hvort ég sé læknir sem ég neita, og hinn talar um sjúklinginn eins og þekkt vandamál. Og báðir halda svo áfram sinni iðju út í daginn.

Ósýnilegi maðurinn rankaði blessunarlega við sér á ný og tók hann fast í hönd mér við hjartað sitt - þakklætið og umhyggjan streymdi okkar á milli yfir landamæri, án orða. Búinn á líkama og sál. Á sama tíma brast sorgin innra með honum út - og ég grét innra með mér með honum.

Eigum við öll sama rétt á aðstoð?

Tíminn þar sem ég hlúði að manninum er óljós í minni, en ég set stórt spurningarmerki við að viðbragðsaðilar brugðust ekki kvikar við þegar hringt var í Neyðarlínuna og tilkynnt um að maður hafði misst meðvitund. Og þegar hringt var í annað sinnið í 112, þar sem ekkert bar á sjúkrabíl, var spurt af viðbragsaðilum hvort að nafnið á viðkomandi væri ekki X. Hefði verið brugðist skjótar við ef um annan aðila hefði verið að ræða? Fordómarnir leynast nefnilega víða innra með okkur og við þurfum að byrja á því að viðurkenna þá. Einungis þá getur mannúðin orðið ríkjandi.

Stutta sagan er sú að enginn sjúkrabíll kom. Eftir dágóðan tíma komu þrír lögreglumenn röltandi og einn þeirra mælti við mig höstuglega og án spurninga; ,,Við tökum nú yfir”. Mér var ekki vel við að yfirgefa manninn sem ég hafði deilt þessari erfiðu stund með, en börnin biðu á kantinum.

Við hjálpum ekki fólki með því að refsa því

Sorgin magnaðist daginn eftir þegar ég las frétt á Vísi um ómanneskjuleg viðbrögð lögreglunnar gagnvart sama manni í Bankastræti um klukkustund eftir að hann varð meðvitundarlaus á vegi okkar á Austurvelli þann 17. júní. Af myndum og myndbrotum af atvikinu að dæma virðast einnig sömu lögreglumennirnir vera að verki sem komu að okkur á Austurvelli og tóku við ,,aðhlynningunni” á honum.

Margar spurningar vakna:

  • Var manninum veitt heilbrigðisaðstoð eftir að hann missti meðvitund?
  • Samkvæmt mbl viðtali frá 18. júní við aðstoðaryfirlögregluþjón á höfuðborgarsvæðinu hafði lögreglan gengið fram á manninn. Það er eitthvað sem vantar í söguna hér þar sem bæði lögreglan og Neyðarlínan voru upplýst um veikindi mannsins a.m.k. tæpri klst. fyrir handtökuna - auk þess sem að lögreglan hafði tekið að sér að hlúa að honum á Austurvelli.
  • Hvernig stendur á því að lögreglan beitir veikan mann ofbeldi vitandi að hann hafi fallið í yfirlið og misst meðvitund innan við klst. áður?

Hér er um veikan einstakling að ræða sem þarf á sérfræðiaðstoð að halda. Hvar er manngæskan og faglegu viðbrögðin sem við borgarar eigum að treysta á frá viðbragðsaðilum í málum sem þessum? Verkferlar og ofbeldi sem lögreglan beitir í þessum aðstæðum eru merki um þekkingar- og úrræðaleysi sem þarf að bæta strax með auknum stuðningi við viðbragðsaðila, fyrirbyggjandi aðgerðum og fræðslu sem stuðlar að umburðarlyndi og víðsýni.

Ég velti fyrir mér hvort að mannúðlegri nálgun á Austurvelli af hálfu viðbragðsaðila hefði mögulega komið í veg fyrir harkalegu viðbrögðin stuttu síðar í Bankastrætinu. Valdbeiting á aðeins að vera beitt í ítrustu neyð - viðbrögð sem fela í sér sinnuleysi og ofbeldi leiða okkur í vítahring sem mun einungis skila sér í auknum skaða fyrir okkur öll. Við verðum ótengdari og fátækari sem samfélag.

Með mannúð að vopni

Ég vil búa í samfélagi sem byggir á trausti, samvinnu og náungakærleik. Ef eitthvað bjátar á og við erum óviss um ástand þeirra sem verða á vegi okkar - þá þurfum við að bregðast við, spyrja spurninga og hjálpast að. Samkennd, hlustun og umhyggja er ein máttugasta tengslabrúin okkar á milli í uppbyggingu kærleiksríks samfélags.

Vissulega er um mikla undirfjármögnun og álag á lögreglunni að ræða sem þarf að bæta úr. Tengt því lögðum við fram í borgarstjórn þann 23. apríl síðastliðinn hvatningu til Alþingis og ríkisstjórnarinnar um að fjölga hverfis/samfélagslöggum til að stuðla að auknu trausti og jákvæðri tengslauppbyggingu við íbúa.

Að lokum vil ég árétta að vangaveltur mínar eiga ekki að snúa beint að viðbragðsaðilum, heldur að þeim ferlum og menningu sem þar virðist ríkja. Ég skora á dómsmálaráðherra að setja í gang stefnumótun og umbreytingu á ferlum innan stofnana viðbragðsaðila þar sem aðaláherslan sé á þverfagleg neyðarteymi og menningarbreytingu þar sem mannúðin er höfð að vopni öllum til heilla.

Höfundur er fyrsti varaborgarfulltrúi Pírata.




Skoðun

Sjá meira


×