Erlent

Rutte næsti fram­kvæmda­stjóri NATO

Lovísa Arnardóttir skrifar
Enn þurfa NATO þjóðirnar að staðfesta hann í embættið en Rutte er nú eini frambjóðandinn til framkvæmdastjóra NATO.
Enn þurfa NATO þjóðirnar að staðfesta hann í embættið en Rutte er nú eini frambjóðandinn til framkvæmdastjóra NATO. Vísir/EPA

Forsætisráðherra Hollands, Mark Rutte, verður næsti framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, NATO. Það varð ljóst í dag þegar eini andstæður Rutte, Klaus Iohannis, forseti Rúmeníu, dró framboð sitt til framkvæmdastjóra NATO til baka.

Norðmaðurinn Jens Stoltenberg gegnir núna hlutverki framkvæmdastjóra en törn hans lýkur í október á þessu ári. Þó svo að Rutte sé nú eini frambjóðandinn til embættisins þurfa enn allar NATO þjóðirnar að staðfesta hann í embættið.

Rutte mun þannig taka við af Stoltenberg viðbrögðum NATO við innrás Rússa í Úkraínu auk þess sem hann þarf að viðhalda sambandi við Bandaríkin. Möguleiki er á því að Donald Trump verði kjörinn forseti landsins í nóvember en hann hefur áður lýst yfir efasemdum um þátttöku Bandaríkjanna í bandalaginu.

Fram kemur í umfjöllun BBC um málið að Rutte og Trump hafi í gegnum tíðina átt í ágætis sambandi og sagði sem dæmi í febrúar á ráðstefnu að „Evrópa ætti að dansa við hvern sem er á gólfinu“.

Rutte bauð sig fram til framkvæmdastjóra NATO eftir að hann tilkynnti að hann ætlaði að hætta í stjórnmálum eftir að ríkisstjórn hans féll síðasta sumar. Eftir að tilkynnt var um arftaka hans í forsætisráðherra embættið í maí gat hann svo einbeitt sér að framboði sínu til framkvæmdastjóra NATO.

Stuðningur hans við Úkraínu og langur ferill hans í stjórnmálum í Evrópu er bæði talið hafa skipt miklu máli fyrir tilnefningu hans en lykilríki eins og Bretland, Bandaríkin, Frakkland og Þýskaland tilnefndu hann. Þrjú ríki stóðu hjá. Það voru Ungverjaland, Rúmeníu og Tyrkland. Eftir að Rutte ferðaðist til Tyrklands í apríl breyttu Tyrkir afstöðu sinni og Ungverjaland tilkynnti um stuðning á þriðjudag. Rúmenar tilkynntu svo um stuðning sinn eftir að Iohannis dró framboð sitt til baka.

Næsta NATO ráðstefna fer fram í Washington í júlí.


Tengdar fréttir

Svíþjóð formlega gengin í NATO

Svíþjóð fékk klukkan fjögur í dag að íslenskum tíma formlega aðild að Atlantshafsbandalaginu, þegar forsætisráðherrann undirritaði plagg þess efnis. Svíþjóð er þannig þrítugasta og annað ríki bandalagsins. Svíar sóttu um inngöngu í bandalagið fyrir tveimur árum, vegna innrásar Rússa í Úkraínu. 

Ungverska þingið samþykkir inngöngu Svía

Ungverska þingið hefur samþykkt lög sem heimila inngöngu Svía í Atlantshafsbandalagið, NATO, en Ungverjar eru síðastir til þess að samþykkja inngönguna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×