Fótbolti

Tap hjá Heimi Hall­gríms en fyrir­liði Mexíkó fór grátandi af velli

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Heimir Hallgrímsson var ekki alveg sáttur á hliðarlínunni en mark var dæmt af jamaíska liðinu í leiknum.
Heimir Hallgrímsson var ekki alveg sáttur á hliðarlínunni en mark var dæmt af jamaíska liðinu í leiknum. Getty/Omar Vega

Mexíkó vann 1-0 sigur á lærisveinum Heimis Hallgrímssonar í Jamaíka í nótt í fyrsta leik í liðanna í Suðurameríkukeppninni, Copa América.

Þetta var aðeins annað tap jamaíska landsliðsins undir stjórn Heimis á árinu en hitt tapið kom á móti því bandaríska í mars. Strákarnir hans Heimis höfðu unnið þrjá síðustu leiki sína fyrir þessa keppni.

Eina mark leiksins skoraði Gerardo Arteaga á 69. mínútu með skoti frá vítateigslínunni.

Jamaíka hélt reyndar að liðið hefði komist yfir tæpum tuttugu mínútum áður þegar Michail Antonio skallaði boltann í markið af löngu færi en myndbandsdómararnir dæmdu markið af vegna rangstöðu.

Mexíkó vann vissulega leikinn en varð fyrir áfalli þegar fyrirliði Edson Álvarez fór meiddur af velli. Álvarez lagðist skyndilega í grasið eftir sprett til baka.

Þessi leikmaður West Ham hélt aftan um lærið og fór grátandi af velli. Það gæti farið að hann missi af stórum hluta af Suðurameríkukeppninni en aðeins hálftími var þarna liðinn af leiknum.

Næsti leikur Jamaíka er á móti Ekvador en lokaleikur riðilsins er síðan á móti Venesúela.

Þetta er í þriðja sinn sem Jamaíka tekur þátt í Copa América en liðið hefur tapað öllum sjö leikjum sínum og á enn eftir að skora. Markatalan er 0-10.

Fyrsta markið og fyrsta stigið væri því sögulegt fyrir Heimi og lærisveina hans sem eru mögulega búnir með erfiðasta mótherjann í riðlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×