Fótbolti

Dæmdur í leikbann á EM fyrir að syngja

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mirlind Daku með gjallarhorn stuðningsmannanna eftir Króatíuleikinn.
Mirlind Daku með gjallarhorn stuðningsmannanna eftir Króatíuleikinn. Getty/James Baylis

Albanski landsliðsmaðurinn Mirlind Daku þarf að taka út tveggja bann á Evrópumótinu eftir að UEFA dæmdi hann í leikbann.

Bannið fær hann þó ekki fyrir brot inn á vellinum eða mótmæli við dómara.

Daku er dæmdur í leikbannið fyrir að syngja þjóðernissöngva með stuðningsmönnum albanska liðsins. Hann notaði gjallarhorn stuðningsmanna til að stýra níðsöngvunum eftir leik á móti Króatíu.

Daku baðst afsökunar á þessu en það dugði ekki til að sleppa við bannið.

Albanska knattspyrnusambandið greinir frá þessu í fréttatilkynningu.

Daku er þó enginn lykilmaður. Hann kom inn á sem varamaður undir lokin í Króatíuleiknum og hefur aðeins spilað sex mínútur samanlagt á Evrópumótinu.

Daku missir því af lokaleik albanska liðsins á móti Spáni sem og leiknum í sextán liða úrslitunum komist liðið þangað en annars fyrsta leik í næstu undankeppni.

Daku er 26 ára gamall framherji og spilar með rússneska félaginu Rubin Kazan. Hann samdi við rússneska félagið eftir innrás Rússa í Úkraínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×