Innlent

Eldri borgarar mót­mæla gjald­töku

Rafn Ágúst Ragnarsson og Vésteinn Örn Pétursson skrifa
Ingibjörg Sverrisdóttir er stjórnarformaður Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni.
Ingibjörg Sverrisdóttir er stjórnarformaður Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni. Stöð 2

Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni mótmælir harðlega hugmyndum um að innheimta gjald af eldri borgurum í sundlaugum Reykjavíkurborgar. Ingibjörg Sverrisdóttir, stjórnarformaður Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni, segir þetta bæði vera lýðheilsu- og prinsippmál.

Fyrirhuguð gjaldtaka fyrir eldri borgara í sundlaugum Reykjavíkur verður gerð í þeim tilgangi að hirða gjald frá eldri ferðamönnum og bjóða íslenskum eldri borgurum þá upp á árskort á fjögur þúsund krónur.

Ingibjörg segir þessar hugmyndir Reykjavíkurborgar afskaplega lélegar.

„Sund er virkilega gott fyrir allflesta og þetta er algjört lýðheilsumál. Þetta hefur verið til þessa gjaldfrítt og það er mjög nauðsynlegt að eldri borgarar stundi þessa líkamsrækt og þetta er líka samfélagslega hagkvæmt,“ segir hún.

„Svo mér finnst þetta bara afskaplega lélegt af sveitarfélaginu að láta sér það til hugar, við erum búin að hafa ferðamenn í tugi ára og alveg þvílíkan fjölda og það er ekki búið að rukka þá í öll þessi ár, og að láta sér detta til hugar að fara að nota eldri borgara núna til þess að ná inn einhverju gjaldi af ferðamönnum,“ bætir hún við.

Fjögur þúsund krónur fyrir árskort kann kannski ekki að virðast há upphæð en Ingibjörg bendir á að á höfuðborgarsvæðinu séu sex sveitarfélög og ákveði hin sveitarfélögin að fara í sömu vegferð og Reykjavíkurborg hyggist gera þá getur upphæðin safnast upp.

„Ef fólk er að stunda þetta og fara að hitta vini og vandamenn í öðrum sveitarfélögum og sundlaugum og þá spyr ég mig, hvað með hin sveitarfélögin, eru þau að fara að gera það sama og setja gjald á. Erum við þá að fara að kaupa árskort í sex sveitarfélögum til þess að geta farið og hitt vini,“ segir hún.

„Þetta er mjög nauðsynlegt og ég tala nú ekki um fréttaveituna í pottinum,“ segir Ingibjörg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×