Formúla 1

Biðlar til „klikkaðra sam­særis­kenninga­smiða“ að leita til sál­fræðings

Aron Guðmundsson skrifar
Toto Wolff, framkvæmdastjóri Formúlu 1 liðs Mercedes og Lewis Hamilton, annar af ökumönnum liðsins
Toto Wolff, framkvæmdastjóri Formúlu 1 liðs Mercedes og Lewis Hamilton, annar af ökumönnum liðsins Vísir/Samsett mynd

Lög­reglan í Nor­hamptons­hire segir ekkert bendi til þess að sak­næmt at­hæfi hafi átt sér stað í kjöl­far nafn­lausra tölvu­pósta og texta­skila­boð sem ýjuðu að því að liðs­menn For­múlu 1 liðs Mercedes væru vís­vitandi að skemma fyrir öku­manni liðsins og sjö­falda heims­meistaranum Lewis Hamilton. Málið er litið al­var­legum augum þar sem að einn tölvu­pósturinn, sem kom frá ó­þekktum aðila, bar nafnið „Mögu­legur dauða­dómur fyrir Lewis.“

Um­ræddur tölvu­póstur var sendur á Toto Wolff fram­kvæmda­stjóra For­múlu 1 liðs Mercedes sem og aðra hátt setta stjórn­endur innan For­múlu 1 og Al­þjóða akstur­s­í­þrótta­sam­bandsins (FIA). Hann barst 10.júní. Degi eftir kanadíska kapp­aksturinn þar sem að Geor­ge Rus­sell, liðs­fé­lagi Hamilton hjá Mercedes, tók fram úr honum á síðasta hring kapp­akstursins.

Því var haldið fram að tölvu­pósturinn sem og önnur texta­skila­boð, sem kom frá ó­nafn­greindum aðila og bar nafnið Mögu­legur dauða­dómur fyrir Lewis, hafi komið frá ó­sáttum starfs­manni For­múlu 1 liðs Mercedes og var því haldið fram að Mercedes, einkum Toto Wolff, væri að skemma fyrir Hamilton. Það væri hans leið til þess að hefna sín á Bretanum sem hefur á­kveðið að halda á önnur mið eftir yfir­standandi tíma­bil og ganga til liðs við Ferrari.

Sjálfur hefur Wolff þver­tekið fyrir á­sakanirnar á hendur sér sem fram komu í um­ræddum tölvu­pósti. Hann er hand­viss um að tölvu­pósturinn hafi ekki verið sendur af ein­stak­lingi innan raða For­múlu 1 liðs Mercedes.

Hann biðlaði til „klikkaðra sam­særis­kenninga­smiða“ sem telja Mercedes vera að vinna gegn Hamilton að „leita sér sál­fræði­að­stoðar.“

Málið kom inn á borð lög­reglu­yfir­valda í Nort­hamptons­hire þann 12.júní síðast­liðinn og hefur rann­sókn hennar leitt í ljós að ekkert bendi til þess að eitt­hvað sak­næmt hafi átt sér stað.

Hins vegar hefur Sky Sports heimildir fyrir því að lög­reglu­yfir­völd hafi beðið Mercedes um að til­kynna um svipað at­hæfi um leið og á sama tíma greinir miðillinn frá því að liðið hafi ráðið eigin rann­sakanda til að fara ofan í kjölinn á málinu.

Hamilton mætti aftur í bíl Mercedes um síðast­liðna helgi og komst á verð­launa­pall í Spánar­kapp­akstrinum. Wolff nýtti þá aftur tæki­færið til að koma á fram­færi skýrri af­stöðu sinni í málinu.

Hamilton endaði í 3.sæti í Spánarkappakstrinum um síðustu helgi og sneri því aftur upp á verðlaunapallinn í Formúlu 1Vísir/Getty

„Ég ber enga virðingu fyrir þessum sam­særis­kenninga­smiðum. Þeir eru heila­lausir. Við viljum bjóða upp á bíl sem að vinnur keppnir og meistara­titla. Þeir sem ná því ekki geta ein­beitt sér að annarri í­þrótt.

Það er gott að sjá Lewis eiga góða keppnis­helgi því upp á síð­kastið hefur það oft verið þannig að hlutirnir hafa ekki gengið upp hjá honum. Núna gekk hins vegar allt upp og ég er á­nægður með að sjá hann standa aftur á verð­launa­pallinum.“

For­múla 1 heldur nú til Austur­ríkis og um komandi helgi fer fram keppnis­helgi á Red Bull Ring brautinni í Spielberg þar í landi. Voda­fone Sport rásin er heimili For­múlu 1 á Ís­landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×